Keðjan

Keðjur þurfa viðhald. En hversu mikið og hvernig viðhald eru mjög skiptar skoðanir um, fátt í hjólreiðaheiminum er eins umdeilt. Því er mjög líklegt að flestir lesendur viti betur en ég og það skal ekki rengt. Öll gagnrýni er vel þegin.

Keðjan, smá fræði (sem má alveg sleppa að lesa).

Keðjan samanstendur af plötum (e. side plate) , pinnum (e. rivet) og keflum (e. bushing). Hver hlekkur hefur tvær plötur, plöturnar tengjast með pinnum sem ganga í gegnum götin í plötunum og keflin umlykja pinnana og halda plötunum aðskildum. Núningsfletirnir sem þarf að smyrja eru:

Keðjuhlekkur

Keðjuhlekkur

  1. Flöturinn innan í keflunum, þar sem keflin þurfa að geta snúist um pinnana. Ef keflin snúast ekki þegar þau ganga upp á tennurnar á tannhjólunum éta þau upp tannhjólin (og keflin eyðast líka).
  2. Flöturinn innan í götunum á plötunum þar sem pinnarnir mæta plötunum. Plöturnar verða að geta snúist á pinnunum svo hægt sé að beygja og rétta keðjuna. Þessi núningsflötur er undir miklu álagi þegar hjólað er. Núningurinn á þessum stað veldur því að pinnarnir slitna og rýmra verður um þá. Þetta slit veldur lengingu keðjunnar. Lenging keðjunar veldur því að hún passar ver á tannhjólin (keðjuhlekkirnir verða lengri en tannabilið og álagið dreifist því ver á hlekki og tennur) sem er helsta ástæðan fyrir þörf á nýrri keðju og sliti á tannhjólum.
  3. Núningsflöturinn milli kefla og platna. Þessi flötur er ekki mikilvægur fyrir virkni keðjunnar og er ekki undir álagi.
Hvenær á að smyrja?

Sumir segja eftir hvern hjóltúr, aðrir smyrja bara þegar keðjan er farin að ískra eða ryðga. Eftir því sem keðjan fær viðhald oftar endist hún lengur (og tannhjólin líka). Vel smurð og hrein keðja auðveldar líka hjólreiðarnar (nýtnin í drifinu er meiri).  Sjálfur nenni ég oft ekki að smyrja vikum saman á veturna og hjóla tugi eða jafnvel hundruð kílómetra milli þess sem ég smyr. Það er ekki til eftirbreytni og slítur drifbúnaði óþarflega mikið. Þörfin fyrir smurningu er mjög misjöfn eftir aðstæðum, því meiri bleyta, ryk og sandur, því oftar þarf að smyrja. Einnig þurfa keðjur á  hjólum sem standa úti meiri athygli.

Með hverju á að smyrja?

Olíu. Því þynnri sem olían er, þeim mun betur kemst hún á þessa núningsfleti þar sem hennar er þörf (innan í keflin og milli pinnanna og platnanna). Þykkari olía endist þó sennilega lengur. Olía í spreybrúsum hefur þann ókost að aðeins hluti hennar lendir á keðjunni og hún vill úðast á ýmislegt annað þar sem hún er frekar til óþurftar. Ég nota saumavélaolíu, maskínuolíu eða einhverja álíka ódýra, þunna olíu í litlum brúsum með mjóum löngum stút.

Ekki nota WD-40 til að smyrja keðjuna. WD-40 er í grunninn vatnsfráhrindandi hreinsiefni (WD stendur fyrir Water Displacer) með nokkra smureiginleika. WD-40 hreinsar burt þá smurningu og feiti sem fyrir er í keðjunni og veitir einhverja smurningu til að byrja með en það endist skammt og eftir stendur keðjan ver smurð en áður en WD-40 var spreyjað á hana.

Hvernig á að smyrja keðjuna
Keðjan þurrkuð

Keðjan þurrkuð

Fyrst þarf að hreinsa keðjuna, ég þurrka bara einfaldlega af henni mesta skítinn og sandinn með tusku, held við keðjuna með tusku og sný pedulunum rólega afturábak. Sumir taka keðjuna af og skrúbba jafnvel með leysiefnum (tjöruhreinsi, uppþvottalegi …). Þá er sniðugt að setja keðjuna ofan í  2 lítra plastflösku með smá lögg af hreinsiefninu og hrista. Keðjuna veiðir maður svo upp úr t.d. með tein. Þá eru til „keðjuþvottavélar“ sem  hægt er að nota þó keðjan sé enn á hjólinu, keðjan er dregin í gegn um leysiefnabað, beygð, sveigð og skrúbbuð. En ég hef ekki nennt að gera þetta. Ég þurrka bara af keðjunni og vona að nýja olían skoli skítnum innan úr keðjunni þegar ég smyr, ávinningurinn í lengri líftíma keðjunnar (og drifbúnaðsins almennt) er að mínu mati ekki vinnunnar virði.

Keðjan smurð, hvert kefli fyrir sig

Keðjan smurð, hvert kefli fyrir sig

Þegar búið er að hreinsa keðjuna (og koma henni aftur á ef hún var tekin af) er komið að olíunni. Olíunni þarf að koma þangað sem hennar er þörf og helst sem minnst annað. Það er gert með því að setja dropa af olíu á hvert kefli á hverjum hlekk keðjunnar. Þetta geri ég með því að láta dropa úr mjóa stútnum á olíubrúsanum ofan á neðri legg keðjunnar og sný pedulunum afturábak á meðan. Gott er að nota smurkönnur (með mjóum stút) eða jafnvel sprautur (fyrir lyf). Það tekur mig c.a. 15-20 sekúndur að fara hringinn. Það þarf að fá örugglega olíu á hvert kefli. Svo er pedulunum snúið duglega í smá stund og skipt á öll tannhjól á meðan (c.a. 30-60 sekúndur hjá mér). Eftir það er tuskan dregin fram og umframolían þurrkuð af keðjunni, sú olía sem eftir er utan á hlekkjunum safnar annars bara í sig ryki og drullu, slettist á hjólið og buxurnar og er almennt bara til ama.

Upprunaleg smurning

Á nýjum keðjum er smurning frá framleiðanda. Hún er betri heldur en nokkuð annað sem hægt er að setja á keðjuna eftir á. Því ætti að halda eins lengi og hægt er í þessa upprunalegu smurningu, ekki nota leysiefni á nýjar keðjur fyrr en þess er nauðsyn.

Hvenær þarf að skipta um keðju?

Þetta er mjög misjafnt milli manna, eins og flest annað sem tengist keðjunni. Keðjur eru misbreiðar eftir því hve mörg tannhjól eru að aftan á hjólunum. Því fleiri tannhjól sem eru að aftan, því mjórri og viðkvæmari er keðjan. Því fastar sem stigið er á pedalana þegar hjólað er, því styttra endist keðjan. Því meiri bleyta og skítur, því styttra endist keðjan. Algeng ending er 1000 – 3000 km. Best er að fylgjast með lengd keðjunnar til að meta ástandið. Einn hlekkur er 12,7 mm (1/2″) þegar keðja er ný, en það er einmitt bilið á milli tannanna (eða reyndar „dældanna“ á milli tannanna) á tannhjólunum. 24 hlekkir ættu að mælast nákvæmlega eitt fet (304,8 mm) á nýrri keðju. Ef 24 hlekkir mælast meira en 1′ 1/16″ (306,4 mm) er kominn tími á nýja keðju. Svona teygð keðja (teygð um 1,6 mm á 30 cm) getur farið að skreppa upp af afturtannhjólum á miklu álagi og veldur auknu sliti á tannhjólum. Góð þumalputtaregla er að skipta um afturtannhjól (krans) í annað hvert skipti sem keðjan er endurnýjuð. Ef tannhjólin eru slitin getur verið að ný keðja „passi ekki“ við lengur og skreppi upp við mikið álag.

Hvernig á að slíta keðju?

Til þess er notað sérverkfæri, s.k. keðjuþvinga (eða keðjulykill). Keðjan er lögð í gróf í þvingunni og kólfur í þvingunni er hertur að pinnanum í keðjunni og svo rekur kólfurinn pinnan út í gegn hinumegin.

Hvernig er keðja sett saman aftur?

Ekki er hægt að nota aftur pinna sem reknir hafa verið úr með keðjuþvingu, þeir afmyndast og ekki er hægt að treysta á þá. Til þess að setja aftur saman keðju eru til tvær aðferðir.

  1. Með keðjulás. Keðjulás (e. master link) er sérstakur hlekkur sem er ætlaður til þess að setja saman, og taka aftur í sundur, keðjur án þess að þörf sé á sérverkfærum. Svona keðjulásar eru til í nokkrum útgáfum og passa misvel fyrir keðjur annarra framleiðenda (fylgið leiðbeiningum framleiðanda um notkun). Það þarf þó alltaf að passa að keðjulás sé fyrir sömu keðjuvídd (fjölda afturtannhjóla) og keðjan sjálf. Keðjulása má opna og loka oft, þ.a ekki þarf nýjan í hvert skipti sem keðja er slitin (þ.s. með því að opna lásinn). En alltaf ætti að nota nýjan keðjulás með nýrri keðju og ekki færa notaða lása á aðrar keðjur.
  2. Með samsetningarpinna. Shimano nota ekki keðjulása heldur „samsetningarpinna“ (e. chain connector pin). Það er nýr pinni sem rekinn er í staðinn fyrir þann sem var tekinn úr (það er samt hægt að nota keðjulása með shimano keðjum). Nýji pinninn er með enda sem brotinn er af (eða klipptur) eftir að hann hefur verið rekinn í. Það má ekki slíta keðjur aftur með því að reka svona „samsetningarpinna“ úr, heldur ætti að velja einhvern af upprunalegu pinnunum. Þetta er vegna þess að götin í plötunum víkka í hvert sinn sem pinni er rekinn úr, þ.a. það ætti ekki að gera oftar en einusinni á hverjum stað.
  1. Engar athugasemdir ennþá.
  1. No trackbacks yet.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: