Val á hjóli

Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar hjól er valið.
Fyrst þarf að átta sig á því hver notkunin á hjólinu kemur til með að vera. Verður það notað eingöngu til samgangna á malbiki eða verður það líka notað í fjallahjólaferðir eða götuhjólreiðakeppnir? Þarfir manna eru mjög misjafnar og það er fjárhagur og smekkur manna líka. Það er því ómögulegt að benda á eitthvert ákveðið hjól sem hina einu sönnu lausn. Hér verður því frekar litið yfir atriði sem ætti að hafa í huga við valið.

Stærð
Það er mjög mikilvægt að valið sé rétt stærð af hjóli og því mikilvægara sem notkunin er meiri. Með stærð á hjóli er átt við hæð stells, afstaða hnakks yfir pedulum, fjarlægð og hæð stýris frá hnakk og jafnvel lengd sveifa.
Við erum öll misstór og hlutföll líkamans eru misjöfn. Það þarf alltaf að máta hjól áður en þau eru keypt og helst ætti kunnáttumaður (ekki bara einhver afgreiðslumaður) að stilla hjólið og gefa ráðleggingar um stærðina.

Verð
Þetta er að sjálfsögðu eitt aðalatriðið við val á hjóli. Ef fjárhagurinn leyfir ekki kaup á góðu hjóli í góðri reiðhjólaverslun er oftast gáfulegra að leita að notuðu hjóli (t.d. hjá sömu reiðhjólaverslun) heldur en að kaupa hjól í „stórmörkuðum“.

Dekk
Ef nota á hjólið til samgangna á malbiki eru slétt dekk málið! Það er ótrúlegt hvað það gerir hjólaferðina auðveldari og hljóðlátari að vera á sléttum dekkjum heldur en að vera á grófum fjallahjóladekkjum. Svo er að pumpa í dekkin, flest reiðhjóladekk eru gefin upp fyrir hámarksþrýsting frá 65 til 110 pund (sem er mikill þrýstingur). Það er orkusparandi að hafa þrýstinginn í dekkjunum eins háan og þau eru gefin upp fyrir. Hægt er að hafa þau aðeins linari ef mönnum finnst hristingurinn of mikill, en þá er venjulega betra að nota frekar breiðari dekk en að hafa dekkin of lin.
Sumir lenda í vandræðum með að sprengja dekk oft. Þá er gott að kaupa vönduð dekk sem hugsuð eru fyrir samgönguhjólreiðar (eða ferðahjólreiðar), það þarf mikið meira til að sprengja þau heldur en venjuleg „ódýr“ dekk.
Á veturna er mjög gott (nánast nauðsynlegt) að nota nagladekk. Þau eru til með mismiklu munstri og mismörgum nöglum eftir þörfum hvers og eins. Nagladekk eru rándýr en að mínu mati hverrar krónu virði! Við val á nagladekkjum þarf að passa að naglarnir séu með oddi úr karbít (e. carbide). Hægt er að búa til sín eigin nagladekk með skrúfum en þau hafa venjulega mjög mikið viðnám og endast stutt. Þau henta ekki til samgangna en geta verið mjög skemmtileg leikföng.

Ljós
Til þess að geta hjólað til og frá vinnu þurfa menn að hafa ljós c.a 7-8 mánuði ársins hér á íslandi. Innanbæjar eru ljósin aðallega til þess að aðrir í umferði sjái mann, frekar en að þau hjálpi manni við að hjóla. Þau eru mjög mikilvægur öryggisþáttur ef hjólað er í myrkri eða rökkri. Naðusynlegt er að hafa bæði afturljós (rauð) og framljós (hvít eða gul). Góð ljós geta verið rándýr, en þar sem þetta er svo mikilvægt öryggisatriði er ekki hægt að mæla með öðru en að menn kaupi öflug ljós.
Samanburður á ljósum geta verið mjög flókin vísindi. Ekki dugar að skoða bara afl og endingartíma rafhlöðu því ljósmagn/afl er ekki það sama milli díóðuljósa, halogenljósa og HID-ljósa, því þarf að skoða tölur um ljósafl (mælt í lumen). Svo er ljósdreifingin misjöfn (lögun ljóskeilunnar) og skoðanir skiptar um hvað sé best.
Ekki má gleyma glitaugum, þau koma ekki í staðinn fyrir ljós, og ljós koma ekki í staðinn fyrir glitaugu. Hjólið verður líka að vera vel sjáanlegt frá hlið fyrir aðra í umferðinni.

Bretti
Á Íslandi eru göturnar ansi oft blautar. Þá sérstaklega á veturna. Fyrir samgönguhjólreiðar gera góð bretti lífið töluvert auðveldara. Þá er ég að tala um bretti í fullri stærð sem skrúfast við stellið í göfflum og við nöf. Að hafa gott, sítt frambretti er meira að segja svo gott að ég mæli jafnvel með því að nota afturbretti sem frambretti (afturbrettin eru lengri) svo það nái lengra niður. Það er líka hægt að nota drullusokk á frambrettið, t.d. bút úr gömlu dekki eða slöngu.
Afturbrettið heldur manni hreinum og þurrum á bakinu. Frambrettið er mikilvægara. Það heldur fótunum þurrum (og hlýjum, sem er eitt aðalvandamálið á veturnar) og hjólinu hreinu (framtannhjólum, keðju og gírum) sem minnkar mikið slit og þörf á viðhaldi.

%d bloggurum líkar þetta: