Hjólaðu maður!

Ég hjóla í vinnuna allt árið um kring og það er bara ekkert mál. Þú getur það líka!
Lang flestir sem hafa ekki prófað að hjóla reglulega í vinnuna eða skólann mikla það fyrir sér, halda að það sé miklu meira mál en það er í raun.
Ert þú einn af þeim? Lestu þér til hér á Hjólaðu maður, hér er allt sem þú þarft að vita: hjálp við að byrja, góð ráð frá reyndum mönnum og svör við spurningum frá fólki eins og þér. Sendu línu eða settu inn komment ef þú vilt vita eitthvað meira.

Afhverju að hjóla?
Ástæðurnar fyrir því að hjóla í vinnuna eru margar og það er misjafnt hvað þær skipta menn miklu máli. En ég hjóla fyrir þetta þrennt:

 1. Fyrir veskið!
  Ríkisskattstjóri segir að akstur á einkabíl kosti að hámarki 92 kr/km. Bara bensínið á bílinn minn kostar tæpar 20 kr/km. Raunverulegur kostnaður er einhversstaðar þarna á milli, þ.a. fyrir þessa 100 km sem ég hjóla til og frá vinnu á mánuði spara ég c.a. 2.000 – 9.200 kr á mánuði. Að minka notkun á bíl sparar því slatta af peningum, en sparnaðurinn margfaldast ef t.d. fjölskylda getur fækkað bílum um 1.
 2. Fyrir heilsuna!
  Það tekur mig c.a. 25-30 mínútur á dag að hjóla til og frá vinnu. Þetta geri ég reglulega 5 daga vikunnar. Þetta er alls ekki erfitt, púlsinn hækkar kannski um 40 slög á mínútu m.v. hvíldarpúls. En það sem er mikilvægast er að þetta geri ég mjög reglulega því það er svo sjaldan sem ég „missi úr æfingu“, ég þarf nú alltaf að komast til og frá vinnu! Jafnvel þó ég stundaði enga aðra reglulega hreyfingu myndi bara þessi stutti hjóltúr minnka töluvert líkur á hjarta- og æðasjúkdómum,   sykursýki, bæta úthald og þrek, o.s.frv.
  Beinn líkamlegur ávinningur er töluverður. En mér finnst jafnvel sá andlegi mikilvægari. Eftir að hafa hjólað í fríska loftinu og hlustað á fuglana (eða fengið slagveðrið beint í fangið) mæti ég frískur og vel vaknaður í vinnuna og það liggur betur á mér heldur en þegar ég keyri. Eins þegar ég kem heim úr vinnunni endurnærist ég og losna við streitu á leiðinni heim, ef ég er pirraður get ég hjólað hraðar og fengið útrás, en ef ég er þreyttur get ég dólað mér og farið „útsýnisleiðina“ heim. Ef ég keyri heim verð ég oftast bara pirraður á umferðinni!
 3. Fyrir umhverfið!
  Mér líður mjög vel með það að komast á sjálfbæran hátt til og frá vinnu. En það er ekki nóg með það að ég sé ekki að sóa olíuforða heimsins og auka á koltvísýringsmengun lofthjúpsins, heldur er ég líka að létta á umferðarmannvirkjunum. Ég fer nefnilega til og frá vinnu á háannatímum og fer um mestu flöskuhálsana í gatnakerfi bæjarins! Þ.a. það munar um hvern bíl. Mér finnst  það einn aðalgalli íslensks samfélags hversu mikið skipulag bæja miðast af því að auðvelt sé að komast um á einkabílum, mannlífið líður fyrir það. Því líður mér gríðarlega vel með það að hjóla og minnka þá álagið um einn bíl. Kannski hjálpar það til við að fresta næstu framkvæmdum.

Hvernig á að byrja?

Hér er ég búinn að setja inn svör við nokkrum spurningum sem algengt er að byrjendur velti fyrir sér.