Nagladekk

Eftirfarandi yfirlit yfir nagladekkjaúrvalið í heiminum er byggt á nokkrum bloggfærslum skrifuðum í febrúar 2010.

Continental
Nordic Spike

Þessi dekk eru ætluð á göturnar, en þau koma í tveimur útfærslum; 240 nagla og 120 nagla. Í 120 nagla útfærslunni eru bara naglar í 2 ytri röðunum, en ekki miðjuröðunum. Samkvæmt mínum heimildum kemur þetta dekk bara í 28×1,6″ stærð, þyngdin er 900 g fyrir 240 nagla en 850 g fyrir 120 nagla. Leiðbeinandi smásöluverð í Bandaríkjunum (MSRP) er 90 dollarar fyrir 240 nagla dekk en 70 dollarar fyrir 120 nagla dekk.
Í fljótu bragði lítur munstrið út fyrir að vera frekar í grófari kantinum miðað við að vera kallað „götudekk“ og sé sambærilegt við t.d. Hakkapelliitta 240 frá Nokian. En að dekkið sé fáanlegt með naglalausri miðju getur verið hentugt fyrir suma.

Spike Claw 2.1

Þetta er svo fjallahjóladekkið frá Continental. Kemur bara í 26×2,1″ stærð, en eins og götudekkið fæst það bæði með 120 nöglum og 240 nöglum. Þyngdin er 840 g fyrir 120 nagla og 900 g fyrir 240 nagla. Smásöluverðið er 75 dollarar fyrir 120 nagla en 100 dollarar fyrir 240 nagla.
Munstrið er svolítið grófara en í Nordic Spike, en þó ekki mikið. Munurinn liggur mest í breiddinni og svo auðvitað í stærðinni, þau eru framleidd hvort í sinni stærð.
Naglarnir hjá Continental eru úr „hertu stáli“. Það er hvergi minnst á að miðjan sé úr karbít, það er atriði sem ég hefði áhyggjur af. Slit á nöglum gæti verið töluvert meira.
Kenda
Klondike Wide

Þessi dekk koma bara í 26×2.1″, eru með 252 nagla í 4 röðum, vega um 1045 g og leiðbeinandi smásöluverð í Bandaríkjunum er 65 dollarar. Munstrið er gróft og hentar fyrir snjó, naglarnir eru úr stáli með karbítbrodd.
Þetta dekk er í hópi þeirra breiðustu og grófustu á markaðnum, en fjöldi nagla jafnast þó ekki á við „stærstu“ dekkin hjá Schwalbe og Nokian. Dettur frekar í flokk með Continental Spike Claw varðandi breidd, grófleika munsturs og fjölda nagla. Munstrið er tvíátta, þ.a. hægt er að „snúa dekkinu við“, þetta gæti komið sér vel m.t.t. slits á nöglum.
Klondike Skinny

Þessi dekk fást í 700x35C og 700x40C, eru með 100 nagla í 2 röðum og vega 795 g í 35C en 875 g í 40C, leiðbeinandi smásöluverð er 65 dollarar. Munstrið er götumunstur en þó það gróft að það gæti gert eitthvað gagn í snjó.
Þetta munstur er keimlíkt Innova Tundra Wolf og jafnvel Schwalbe Snow Stud. Mjótt dekk með naglana nálægt miðju og nægu munstri til að grípa í snjó, en væntanlega með viðnám eftir því. Gæti verið spennandi valkostur fyrir þá sem þurfa stundum að drífa í snjó, a.m.k. sem afturdekk.
Klondike Standard

Þetta dekk er bara til í 26×1,95″ stærð, er með 169 nagla í 4 röðum (reyndar mjög fáir naglar í ytri röðunum), vegur 855 g og leiðbeinandi smásöluverð er 65 dollarar. Munstrið er milligróft, naglarnir frekar utarlega en tiltölulega mikið gúmmí á miðjum bananum.
Þetta dekk fer í flokk með þeim dekkjum þar sem hægt er að „láta naglana grípa“ með því að lækka þrýstinginn, en er þó með nógu gróft munstur til þess að spjara sig í snjó. Viðnámið ætti að vera tiltölulega lágt með fullann þrýsting í dekkjunum þar sem svona mikið naglalaust gúmmí er á miðjum bananum.

Ég hef aldrei prófað nagladekk frá Kenda, en þau fá fína dóma á netinu varðandi endingu, viðnám og frammistöðu.

Innova
Innova IA-2901 (Ice Husky)

Þetta dekk kemur í 26×2.1″ stærð og er með 268 nagla í 4 röðum, vegur 1200 g. Algengt verð í Bandaríkjunum er um 45 dollara.
Munstrið og breiddin lofa góðu fyrir torfærur en jafnast þó ekki við grófustu dekk annarra framleiðenda þrátt fyrir mikinn naglafjölda. Umsagnir eru nokkuð jákvæðar gagnvart frammistöðu, en ending nagla er víst lítil (meira um það neðar í færslunni).
Innova IA-2902 (Tundra Wolf)

Í 26″ stærð er þetta dekk 1.75″ breitt, með 104 nagla í 2 röðum, vegur 1020 g og algengt verð um 35 dollara. Það kemur einnig í 28×1.5″ (110 naglar), 700x35C (110 naglar), 700x38C (110 naglar) og 700x45C (114 naglar).
Munstrið svipar til Nokian 106W, þ.e.a.s. götudekk með naglana nálægt miðju. Helstu gallar samkvæmt umsögnum snúa að endingu nagla, annars virðast notendur nokkuð sáttir.
Innova Snow Fox

Dekkið kemur í 20×1.75″ stærð með 144 nagla í 2 röðum og kostar 35 dollara hjá bikesdirect.com. Ég fann þetta dekk ekki á heimasíðu framleiðanda, þ.a. þetta gæti verið einhverjar leifar af lager sem þeir eru að selja.

Munstirð virðist vera með naglana svolítið til hliðar, en þó gróft munstur. Viðnám er því líklega töluvert, en munstrið lofar góðu fyrir snjó.

Á heimasíðu Innova eru fleiri gerðir af nagladekkjum sýndar, en ég hef ekki fundið þær til sölu á netinu og því verður ekki fjallað um þau hér.

Innova dekkin eru líklega þau ódýrustu á markaðnum og þyngri en flest önnur. Helstu gallar sem notendur minnast á er ending nagla, þetta eru stálnaglar en eru ekki með karbít miðju. Innova mælir hinsvegar með því að notendur skipti um slitna nagla og selja bæði nagla og verkfæri til þess.

Nokian
Nokian Hakkapeliitta Stud

Þessi dekk koma a.m.k. í 26×1,9″ stærð, þá með 62 stálnöglum (með karbítmiðju) í 2 röðum, þyngdin er 1040 g en ekkert verð fann ég. Munstrið er götumunstur.
Þetta dekk er með frekar strjála nagla og fínt munstur. Nokkurnvegin sama dekkið (sama munstur) heitir líka Nokian A10 en það fæst í fleiri stærðum, bæði 700C og 26″, þá með upp í 76 nagla og þyndum niður í 800 g og verðum um 40 dollara í Bandaríkjunum. Dekkið gæti verið ágætislausn fyrir þá sem vilja hafa sem minnst viðnám en þó einn og einn nagla. Naglarnir eru frekar langt frá miðju, þ.a. hugsanlega má minnka viðnám þeirra með því að pumpa dekkið glerhart.
Nokian Hakkapeliitta W106

Þetta dekk kemur í 26×1,9″, 35x700C og 40x700C, naglarnir eru 106 í tveimur röðum, þyngdin er 820g (fyrir 26″ dekk) og verðið um 44 dollara. Munstrið er götumunstur með frekar miklu gúmmíi á miðjum bana og tiltölulega fíngert, en naglarnir eru nálægt miðju.
Þetta er algengt dekk á Íslandi, enda létt, með lítið viðnám og tiltölulega ódýrt. Ekki skilst mér að það sé rómað fyrir getu í snjó og slabbi, en er víst ágætt í hálku. Sumum hefur reynst vel að hafa W106 sem afturdekk en grófara dekk að framan.
Nokian Mount & Ground 160

Þetta dekk kemur bara í 26×1.9″ stærð, naglarnir eru 160 í tveimur röðum, þyngdin er 850 g og verðið um 45 dollara. Naglarnir eru frekar langt til hliðar og munstrið verður að kallast frekar snjómunstur heldur en götumunstur, en er þó ekki í flokki þeirra grófustu.
Þetta dekk er vinsælt til samgönguhjólreiða á Íslandi. Þó að naglarnir séu fleiri í grófari dekkjunum verður að athuga að í þessu dekki eru 160 naglar í tveimur röðum (grófari dekkin hafa þá í 4 röðum) þ.a. bil milli nagla í sömu röð er hvað minnst í þessu dekki.
Nokian Hakkapeliitta W240

Þetta dekk kemur í 26×1.9″ og 700x40C, er með 240 nagla í 4 röðum, 26″ dekkið er 880 g og kostar um 68 dollara. Munstrið er tiltölulega gróft snjómunstur.
Þetta er mjög algengt dekk á Íslandi, hentar þeim sem þurfa að komast sinnar leiðar í hvaða færð sem er. Það dugar líka í einhverjar fjallhjólreiðar, en önnur grófari dekk myndu leysa þau verkefni enn betur í flestum tilfellum. Ég er á mínum 5. vetri á svona dekkjum, set þau undir við fyrstu hálku (venjulega í október eða snemma í nóvember) og tek þau undan í lok apríl eða byrjun maí. Það kemur sjaldan fyrir að ég óski mér grófari dekkja, en mun oftar að ég bölvi miklu viðnámi.
Nokian Extreme 294

Þetta dekk kemur í 26×2.1″ og 29×2.1″ stærðum, er með 294 nagla í 4 röðum, 26″ dekkið vegur 950 g og verðið er um 88 dollara. Munstrið er mjög gróft snjómunstur með mjög litla „takka“.
Eftir því sem „gúmmítakkarnir“ sem naglarnir eru í verða minni m.t.t. stærð naglanna, verður þrýstingur á naglana meiri (á ís) og þeir ná meira gripi. Eins er minna um að snjór festist í dekkinu. Á móti kemur að viðnámið á þurru malbiki eykst. Þetta dekk myndi ég segja að væri of gróft fyrir flestar samgönguhjólreiðar, en á heimavelli í vetrarfjallahjólreiðum, enda kalla þeir hjá Suomityres þetta XC dekk.
Nokian Hakka 300

Þetta dekk kemur í 26×2.1″ og 26×2.2″ stærðum, er með 300 álnagla með karbítmiðjum í 4 röðum, 2.1″ dekkið er 795 g og kostar um 110 dollara. Munstrið er gróft snjómunstur með litla „takka“.
Munstrið er svipað og í Extreme 294, en hér eru komnir álnaglar (en með karbítmiðju). Dekkið er því léttara og dýrara. Án þess að leggjast í yfirgripsmiklar rannsóknir, fann ég engar upplýsingar á netinu um hvort slit á álnöglunum er meira en á stálnöglunum. Þeir hjá Suomityres ætla þetta dekk fyrir XC vetrarhjólreiðar.
Nokian Freddie’s SW336

Þetta dekk kemur í 26×2.3″ stærð, með 336 álnagla í 6 röðum, þyngdin er 990g og verðið 118 dollarar. Munstirð er gróft snjómunstur með jafnvel enn minni takka en hin torfærudekkin frá Nokian.
Þetta er Freeride vetrardekk samkvæmt framleiðanda, hugsanlega það öflugasta á markaðnum. Þetta er dekkið fyrir þá allra kröfuhörðustu, dekkið sem þú skellir undir næst þegar þú þarft að hjóla niður Esjuna í febrúar 😉
Schwalbe
Marathon Winter HS 396

Þetta er dekk með „götumynstri“, 26″ útgáfan er 1.75″ breið, með 200 nöglum í 4 röðum, 950g með kevlar styrkingu. Til í stærðum: 20″, 24″, 26″, 700x35C og 700x45C. Hjá Schwalbe í Bandaríkjunum kostar dekkið 78 dollara.
Þetta dekk hentar á ruddum en hálum götum og stígum en virkar lítið í snjó eða slabbi þar sem mynstrið er ekki nógu gróft fyrir þannig aðstæður. Naglarnir eru víst með karbít miðju steypta í stál, þannig að þeir ættu að endast vel.

Snow Stud HS 264

Þetta dekk er með aðeins breiðara og með grófara mynstri en Marathon Winter. 26″ útgáfan er 1.9″ breið, með bara 100 nöglum í 2 röðum, 980 g með kevlar styrkingu. Kemur í 26″ og 700x38C. Kostar 72 dollara hjá Schwalbe.
Þetta dekk er með nöglunum til hliðar við miðju og framleiðandi mælir með því að hleypa úr í hálku. Hugsunin er að þegar dekkið er hart snerti naglarnir ekki jafn mikið og þannig er dregið úr viðnámi. Þetta hentar þeim sem lenda bara stöku sinnum í hálku (og aldrei óvænt). Dekkið er ekki léttara en Marathon Winter þrátt fyrir að það séu helmingi færri naglar, en ég veit ekki hvernig viðnámið kemur út.

Ice Spiker HS 333

Þetta er fullvaxið vetrarfjallahjóladekk, bara til í 26×2.1″, með 304 nagla í 4 röðum, 980 g með kevlar styrkingu. Dekkið er á 111 dollara hjá þeim. Mynstrið er nógu gróft til þess að virka vel í snjó og slabbi. Þetta dekk virðist vera á heimavelli í torfærum í snjó og á frosnum stígum. Aftur á móti er hætt við að flestum þyki dekkið hafa full mikið viðnám fyrir daglegar samgönguhjólreiðar.

Ice Spiker Pro HS 379

Þetta er „stóri bróðir“ Ice Spiker dekksins, kemur líka bara í 26×2.10″ með 361 nagla í 4 röðum en aðeins 695g! Verðmiðinn hljóðar líka upp á 150 dollara.
Þyngdinni er náð niður með því að nota nagla þar sem karbít-miðjan er steypt í álnagla (í stað stál). Þetta virðist vera stóri munurinn á þessu dekki og „litla bróður“.

Schwalbe dekkin eru öll nema Ice Spiker Pro með kevlar styrkingu. Þetta er eitthvað sem ég held að Schwalbe hafi góða raun af úr „sumardekkjunum“ sínum og á mikinn þátt í vinsældum þeirra. Sjálfur hef ég aldrei sprengt nagladekk nema með því að klemma slönguna með of lin dekk. Það getur þó vel verið gagn af þessu í götunagladekkjunum.
Almennt virðast grófu dekkin vera með öflugustu vetrarfjallahjóladekkjunum á markaðnum, alveg þess verð að fá að reyna sig við íslenskar aðstæður að mínu mati.

%d bloggurum líkar þetta: