Snjallhjól

júní 18, 2015 Færðu inn athugasemd

Hjól með innbyggðum nándarskynjurum, leiðsögukerfi, staðsetningartæki, „hjólaleitarkerfi“, ljósum og samskiptabúnaði. Afhverju ekki?

build_black_black

Vanguard frá Vanhawks gæti kallast „snjallhjól“. Það varar þig við ef einhver kemur aftan að þér („draftar“ þig) með titringi í höldunum. Hjólið hefur innbyggt staðsetningartæki og leiðsögukerfi sem segir þér til með ljósdíóðum í stýrinu. Hjólið (eða reyndar gagnagrunnur framleiðandans) heldur utan um allar upplýsingar um hjólaferðir þínar. Hjólið stingur upp á valkostum í leiðarvali, og notar til þess upplýsingar um leiðarval annarra hjólreiðamanna á svæðinu. Snjallhjólin á svæðinu hjálpast að við að leita að merkjum (rafrænum) frá stolnum snjallhjólum. Fram og afturljós eru innbyggð.

Þetta er allt búnaður sem hægt er að fá og skrúfa á hvaða hjól sem er (eða hlaða niður í snjallsímann). En hugmyndafræði Vanhawks er að þetta sé allt innbyggt í hjólinu sem haldi gullfallegu útlitinu og síminn er geymdur í vasanum. Þetta er „Apple hugmyndafræði“. Kemur í þremur litum.

Og já, það verður ekki batteríslaust, það er dýnamór í framnafinu. Reimdrifið er hljóðlaust og „viðhaldslaust“.

Hvað finnst þér?

Heimilisútgjöldin lækkuð

maí 15, 2012 Færðu inn athugasemd

Ég vildi bara vekja athygli ykkar á þessari umfjöllun Magnúsar Halldórssonar viðskiptafréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis um heimilisreksturinn. 

Þið sem ratið inn á þessa síðu vitið nú líklega að það er hægt að spara með því að hjóla, en viðskiptafréttastjórinn hefur reiknað sér meiri sparnað en flestir aðrir sem ég hef heyrt af. Að öllum líkindum er forsendan að fjölskyldan spari sér einn bíl með því að a.m.k. annað foreldrið hjólar til vinnu og annarra erinda. Flott hjá þeim!

Hugleiðingar hjólreiðamanns um Umferðarstofu og lögregluna

september 23, 2011 4 athugasemdir

Hlutverk lögreglu á Íslandi (skv. 2. grein lögreglulaganna) er m.a. að gæta almannaöryggis og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna.  Hlutverk Umferðarstofu er m.a. (skv. heimasíðu hennar) “að auka lífsgæði fólks með því að efla öryggi í umferðinni.”
Markmiðið með því að auka öryggi í umferðinni er augljóslega að minnka heilsutjón vegfarenda. Helsti mælikvarði Umferðarstofu á umferðaröryggi er fjöldi látinna í umferðinni á ári, en einnig er fjöldi slysa (alvarlegra og smávægilegra) og fjöldi slasaðra (alvarlega og smávægilega) líka mældur.
Hvorug þessara stofnana hefur það hlutverk að stuðla að bættri heilsu vegfarenda í víðari skilningi, bara að draga úr heilsutjóni af völdum umferðarslysa með auknu umferðaröryggi.
Öllum samgöngum (líka hjólreiðum) fylgir hætta á heilsutjóni vegna umferðarslysa. Hættan ræðst m.a. af umferðarmagni og umferðarörygginu. En hjólreiðar eru frábrugðnar vélvæddri umferð að því leiti að þær efla heilsuna. Hreyfingin við hjólreiðar bætir heilsuna en slysahættan getur leitt til heilsutjóns. Jákvæðu áhrifin á heilsuna eru þó margföld á við neikvæðu áhrif slysahættunnar. Þó er það augljóst að aukning hjólreiða hefur í för með sér fjölgun hjólreiðaslysa. Aukning hjólreiða samræmist því ekki hlutverki lögreglunnar og Umferðarstofu. Þó að tilgangur umferðaröryggishlutverks lögreglu og Umferðarstofu sé að bæta heilsu vegfarenda, á takmarkið að nást bara með því að fækka slysum, sem er viss þversögn þegar um er að ræða hjólreiðar.
Hlutverk Lýðheilsustöðvar er “að skapa landsmönnum tækifæri til heilbrigðs lífs”. Undir þá skilgreiningu falla bæði jákvæðu áhrif hjólreiðanna á heilsuna og slysahættan. Þar sem að jákvæðu áhrifin eru meiri en neikvæðu áhrifin (slysahættan) er þarna viss “hagsmunaárekstur” milli hlutverka Lýðheilsustöðvar annarsvegar og lögreglu og Umferðarstofu hinnsvegar. Lýðheilsustöð hvetur til aukinna hjólreiða sem hefur slæm áhrif á tölfræðina hjá Umferðarstofu.
Þessi hlutverkaskipti opinberra stofnana er gott að hafa í huga þegar ummæli lögreglunnar og Umferðarstofu um umferðaröryggi hjólreiðamanna eru skoðuð. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til þessara aðila að þeir “tali upp hjólreiðar”. Jafnvel vinnur hlutlaus fræðsla um umferðaröryggismál hjólreiðamanna ekki að hlutverki lögreglu og Umferðarstofu. Lýðheilsustöð (nú Landlæknisembætti) ætti að geta verið sú opinbera stofnun sem veitir hlutlausar upplýsingar heildaráhrif hjólreiða á heilsuna. Hugsanlega væri kröftum hagsmunasamtaka hjólreiðamanna (og allra útvarpsgjaldsgreiðenda) betur varið í að berjast fyrir því að Lýðheilsustöð verði meira áberandi í umfjöllun um hjólreiðar en að berjast við vindmyllur (t.d. Einar Magnús).

Afhverju hjóla Stokkhólmsbúar?

júní 9, 2011 Færðu inn athugasemd

Hér er grein um könnun meðal hjólreiðmanna í Stokkhólmi þar sem þeir nefna helstu ástæður fyrir því að þeir hjóla.

  • 9 af hverjum 10 nefna hreyfingu
  • 8 af hverjum 10 nefna tímasparnað
  • 7 af hverjum 10 nefna umhverfissjónarmið

Mér finnst merkilegt hversu margir nefna tímasparnað. Ég held að fáir hjólreiðamenn á Íslandi spari tíma á því að hjóla (a.m.k. spara ég ekki tíma á því). Það væri mjög fróðlegt að sjá niðustöður svona könnunar á Íslandi. Það gæti gefið okkur hjólreiðaáróðursmönnum mikilvægar vísbendingar um hvernig best sé að höfða til fólks. Auðvitað væru þetta líka krítískar forsendur ef samgönguyfirvöldum dytti í hug að greina þarfir hjólreiðafólks. Hefur þetta verið kannað? Væri þetta ekki minnsta mál fyrir LHM?

 

Pappahjálmar!

júní 7, 2011 Færðu inn athugasemd

Reiðhjólahjálmar úr bylgjupappa! Afhverju ekki?

Anirudha Rao, hönnunarnemi frá London, hefur hannað reiðhjólahjálm úr bylgjupappa og kallar hann Kranium. Pappinn er vatns- og svitaheldur. Hjálmurinn uppfyllir EN 1078 staðalinn fyrir hjólabretta-, hjólaskauta- og hjólahjálma (sem er reyndar hálfgerður „drasl staðall“ þegar kemur að reiðhjólahjálmum til notkunar í umferðinni, þó að mati Kiwanisklúbbsins sé hann fullgóður  á meðan hjálmarnir eru ekki notaðir á skíðum!).

Hjálmurinn er settur saman úr papparenningum og hugmyndin er að hægt sé að velja hvern renning fyrir sig fyrir hvern kaupanda. Þannig aukast líkurnar töluvert á að kaupandi endi með hjálm sem passar honum óháð því hvort hann sé með „staðlað höfuðlag“ eða ekki. Snilld.

Mynd eftir Anirudha Rao

Fjallahjólabrautin í Kjarnaskógi

júní 1, 2011 1 athugasemd

Takk!

Þeir sem lögðu þessa frábæru fjallahjólabraut eiga skilið af fá miklar þakkir frá okkur sem notum hana. Þetta er alveg hreint magnað framtak og það sést að hún hefur kostað mikinn svita, blóð og tár. Mér skilst að stór hluti vinnunnar hafi verið sjálfboðavinna fjallahjólamanna sjálfra. Ég kann ekki að nefna þá alla, en veit að Johan Holst, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, hefur barist ötullega fyrir að fá að leggja brautina og mér skilst að Magne Kvam hafi farið einn aðal-gaurinn hjá hjólamönnunum. Takk strákar.

Brautin er 12 km sæla, lengsta sérhannaða fjallahjólabraut landsins. Það þýðir ekkert að lýsa henni í orðum, þið verðið bara að prófa. Það er eitthvað fyrir alla (nema kannski allra harðasta fjallabrun). Það er hægt að fara alla 12 km eða bara hluta. Brautin byrjar á Naustaborgarstíg ofan Hamra og endar á gamla veginum upp í Kjarna rétt fyrir ofan Eyjafjarðarbraut vestari. Það er líka hægt að komast inn í brautina frá aðalstígnum, ég merkti þessa 3 staði með rauðum krossum á loftmynd, ég fann ekkert kort af brautinni í fljótu bragði.

Mynd: Johan Holst

Reiðhjólauppboð

maí 26, 2011 Færðu inn athugasemd

Uppboð á reiðhjólum úr óskilamunadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður haldið þann 11. júní kl 11:00 að Askalind 2a, Kópavogi. Á uppboðinu verða boðin upp reiðhjól og barnavagnar sem eru í mismunandi ástandi.
Hér eru smá ráðleggingar við kaup á notuðum hjólum, m.a. hvernig ætti að haga sér á reiðhjólauppboðum.

Mynd eftir Trish Brink

Hjólað í vinnuna, nýtt æfingatímabil!

maí 25, 2011 1 athugasemd

Í dag lýkur vinnustaðakeppninni „hjólað í vinnuna 2011“. Mikið hefur verið hjólað og margir haft gagn og gaman af, sum markmið hafa náðst en önnur ekki. Allir sem þátt tóku eru sigurvegarar, þó einhverjir þykist vera meiri sigurvegarar en aðrir.

En nú er alls ekki rétti tíminn til að henda hjólinu inn í skúr, því á miðnætti í kvöld hefst æfingatímabilið fyrir „hjólað í vinnuna 2012“!

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 25, 2011 Færðu inn athugasemd

Léttu af þér.

Hjólið þitt er burðardýr, hannað til að bera þig en getur líka borið farangurinn þinn. Reyndu að koma farangrinum á hjólið frekar en að hafa hann á bakinu. Þyngd á bakinu eykur álag á mjóhrygginn, rassinn og úlnliðina (ef þú hallar fram á hjólinu þínu) og gerir þér erfiðara fyrir að halda jafnvægi á hjólinu.

Bögglaberar, körfur og töskur til að bera dótið þitt er til í gríðarlegu úrvali og af öllum tegundum, það er örugglega hægt að finna eitthvað sem hæfir þínum þörfum og smekk. Ef hjólabúðirnar geta ekki leyst málið er allur fjandinn til á netinu.

Karfa

Mynd frá publicbikes.com

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 24, 2011 Færðu inn athugasemd

Brostu.

Hvort sem þetta er gömul og væmin klisja eða vísindalega sönnuð staðreynd, þá virkar þetta bara. Hjóltúrinn verður enn betri með bros á vör. „Smælaðu framan í heiminn og þá mun heimurinn smæla framan í þig“. „Brosið er sólskin sem vermir allt“. Að auki koma aðrir betur fram við þig í umferðinni, það er stundum kallað „Mary Poppins áhrifin“.