Vetrarhjólreiðar

Það er ekkert stórmál að hjóla á veturna, þú getur það líka!
Að geta hjólað í öllum veðrum og hvaða færi sem er krefst reyndar sérhæfðs útbúnaðar, en kostnaðurinn þarf ekki að vera meiri en sem nemur örfáum bensínáfyllingum á bíl.

Það mikilvægasta er að vera með góð ljós og á góðum nagladekkjum. Þessi tvö atriði eru nefnilega mjög mikilvæg öryggisatriði. Annar búnaður sem nefndur er hér gerir hjólaferðina kannski skilvirkari, þægilegri og að betri upplifun, en ekki gleyma því að ljós og nagladekk eru það mikilvægasta.

Munurinn á því að hjóla að sumri og vetri á Íslandi liggur fyrst og fremst í myrkrinu, bleytunni og hálku og ófærð. Athugið að ég nefni ekki kulda eða vind. Það er nefnilega alls ekki kalt að hjóla á veturna! Vindurinn er svosem ekkert meiri en á sumrinn heldur.

Myrkrið
Þegar hjólað er í umferðinni á morgnana í slæmu veðri og myrkri er lífsnauðsynlegt að vera VEL sjáanlegur. Eitt blikkandi díóðuljós dugar ekki. Auðvitað er það betra en ekkert, en bílstjórar eru fyrst og fremst með hugann við að fylgjast með hinum bílunum og gera ekki endilega ráð fyrir því að rekast á hjólreiðamenn. Þess vegna verður hjólreiðamaður eiginlega að vera sýnilegri (meira áberandi) en bílarnir. Við meigum ekki gefa bílstjórum neinn séns á að segja „ég bara sá hann ekki!“.
Við þurfum ljós, endurskin og skæra liti! Ekkert eitt atriði af þessum þremur kemur í staðinn fyrir hin.
Ef framljósið er ekki mjög öflugt er best að stilla það þannig að allavegana hluti ljóskeilunnar sé láréttur (lýsi í augun á bílstjórunum). Enduskin verður að vera á öllum hliðum og helst á hlutum sem eru á hreyfingu (teinum, pedulum eða fótum). Líkami hjólreiðamannsins er stærsti og best sýnilegi flöturinn á hjólinu. Það er gulls í gildi að vera í skærum lit (t.d. neon gult vesti eða jakki).

Bleytan
Það er blautt að hjóla á veturna. Það er vel hægt að komast af án bretta, en þau gera lífið svo miklu auðveldara og þurrara. Ég get ekki mælt með neinu öðru en brettum í fullri lengd, og helst aðeins lengri en það.
Það er sniðugt að nota afturbretti að framan líka, frambretti eru sjaldnast nógu löng. Drullusokkur á frambrettið er líka mjög gagnlegur, hann heldur fótunum þurrari og keðjunni og tannhjólunum hreinum, ekki veitir af. Drullusokka getur maður útbúið sjálfur úr allskonar dóti, plastílátum eða gömlum dekkjum eða slöngum.
Auðvitað eru vatnsheld föt líka mikilvæg þegar það er úrkoma, en góð bretti minnka töluvert þörfina fyrir þau.

Hálkan
Við hálkunni er aðeins eitt ráð. Nagladekk með nöglum úr karbít! Þau eru dýr, en hverrar krónu virði. Þau fást með mismunandi fjölda nagla og misgrófu munstri. Þó að ekki sé stefnt á að hjóla í mikilli ófærð er erfiðara að komast hjá hálkunni. Ég myndi giska á að það væri nagladekkjafæri hjá mér c.a. 50-80 vinnudaga á ári. Ég á bara eitt hjól og hjóla því á nöglum alla daga frá c.a. okt-nóv fram í apríl.

Ófærðin
Hér eru aðstæður manna mjög mismunandi. Sumir verða að komast sama hvað á gengur! Aðrir þurfa bara að sigrast á stöku skafl eða smá föl. Þegar hjólað er í snjó er gott að hafa gott bil á milli dekks og brettis, meira eftir því sem dekkið er grófara. Í vissum aðsætðum festist snjór á dekkinu og getur hlaðist upp milli dekks og brettis ef bilið er of lítið. Demparar eru sjaldnast nauðsynlegir innanbæjar, en ef hjólað er að vetrarlagi á göngustígum sem ekki eru ruddir geta þeir komið sér vel. Þá á ég við aðstæður þar sem hjólað er í frosnum fótsporum (eftir gangandi fólk eða hesta). Þetta eru svo óalgengar aðstæður að flestir ættu að geta komist hjá þeim með því að velja aðra leið.
Þegar hjólað er í svo miklum snjó (á grófum og breiðum dekkjum) að dekkin ná ekki lengur að „skera sig í gegnum“ snjóinn og ná gripi, getur virkað að hleypa vel úr. Þá er hægt að láta hjólið „fljóta“ svolítið. Þetta er mjög skemmtilegt en svolítið erfitt og á mjög sjaldan við þegar hjólað er til og frá vinnu.
Erfiðustu aðstæðurnar eru líklega snjór sem er búið að salta. Þegar snjór blandaður salti nær að mynda lag sem er 10-15 cm getur verið mjög erfitt að hjóla í honum af því að hann þjappast ekki. Þá lætur hjólið illa að stjórn og erfitt er að halda jafnvægi, sama hversu vel búið hjólið er. Við þessu er lítið annað hægt að gera en að velja aðra leið eða að leiða hjólið og spóla í saltinu á skónum.
Þó að hér sé kominn svolítill texti um ófærð eru þetta aðstæður sem eru ekki algengar að maður lendi í á leið til og frá vinnu. Fjöldi daga þar sem ég er lengur á leiðinni en venjulega vegna færðar er ekki nema c.a. 10 – 20 á vetri. Þetta eru oft eftirminnilegustu og skemmtilegustu hjóladagarnir, ég kem skælbrosandi í vinnuna eftir ævintýrið á meðan aðrir koma sótbölvandi af því að þeir þurftu að moka og skafa!

Svifryk
Á kyrrum vetrardögum getur svifryksmengun orðið mikil í höfuðborginni. Við þessar aðstæður er best að nota góða rykgrímu og velja leiðir sem krækja hjá verstu svifryksmengununni. Ég hvet ykkur hins vegar til þess að leggja ekki hjólunum á þessum dögum, þetta eru oft fallegustu og björtustu dagarnir í skammdeginu og þó svifrykið sé ekkert geðslegt gerir útiveran og hjóltúrinn manni oft mjög gott.

%d bloggurum líkar þetta: