Leiðarval

Leiðarval er mjög mikilvægur þáttur í samgönguhjólreiðum. Hvaða leið er valin hefur nefnilega svo mikið að segja um upplifunina af hjólaferðinni.

Það mikilvægasta í leiðarvali er að geta hugsað út fyrir bílinn. Þ.e.a.s að festast ekki í því að hjóla sömu leiðir og þú myndir keyra. Venjulega er sú leið nefnilega sú leiðinlegasta sem þú getur hugsanlega valið (út af allri umferðinni). Einn af kostum hjólsins er sá að það þarf ekki stór og öflug umferðarmannvirki til þess að ná hámarkshraða. Þú kemst eiginlega alveg jafn hratt í íbúðagötu eða á hlykkjóttum stíg eins og á 6 akreina hraðbraut.

Eins og með margt annað varðandi hjólreiðar er það mjög persónubundið hvernig leiðir menn velja. Því gildir í þessu sem öðru að prófa sig áfram.
Ég vil ítreka þetta: Prófaðu fleiri leiðir. Jafnvel þó þú sért ánægður með þá leið sem þú ert vanur að fara, prófaðu aðrar lengri, styttri, erfiðari, léttari eða með betra útsýni o.s.frv. leiðir!

Ég fullyrði að mjög mörg ykkar sem notið hjólið til samgangna gætuð notið þess meira ef þið væruð duglegri að prófa nýjar leiðir. Það kemur manni nefnilega svo oft eitthvað á óvart. T.d. getur einhver gata verið sérstaklega skjólsæl í austanátt. Í júlí getur verið svo góður ilmur af einhverjum runna á annarri leið. Fyrir klukkan 7 á morgnana getur verið fínt að fara um umferðargötu sem annars væri leiðinleg. Klukkan fjögur á föstudögum er gaman að fara og hjóla framhjá öllum bílunum sem sitja fastir í umferðarteppunni á einni leiðinni. Í mikilli rigningu er svo gaman að bruna á fullu út í stóra pollinn á hinni leiðinni. Oft eru „hinar leiðirnar“ ekki svo mikið lengri en sú stysta, kannski munar bara 2 eða 3 mínútum.

Vandað leiðarval getur aukið öryggi okkar. Það veitir ekki af. Hér gildir að velja frekar leiðir þar sem maður treystir sér til þess að hjóla á götunni og þarf ekki að flýja upp á gangstétt. Við erum nefnilega öruggari (okkur sjálfum og öðrum vegfarendum) á götunni heldur en á gangstéttinni.

Það getur verið stórsniðugt að skoða stundum götukort af bænum. Þá er auðvitað gott að hafa kort sem sýnir alla stíga og staði þar sem hægt er að „stytta sér leið“. Jafnvel þó maður hafi búið lengi á sama stað og sé gjörkunnugur, þá kemur það oft manni á óvart hvernig landið liggur í alvörunni. Ein gata er styttri en maður ímyndaði sér og svo hafði manni ekki dottið í hug að það væri hægt að komast úr þessum botnlanga í hinn um gangstíg. Svo vissi maður náttúrulega að þessi leið væri styst, en á kortinu sést að hin leiðin er nú nánast engu lengri.

%d bloggurum líkar þetta: