Klæðnaður

Hér er umfjöllun almennt um hjólaklæðnað. Þá er ég frekar að hugsa um klæðnað sem gerir lengri ferðir þægilegri, en alls ekki að eitthvað af þessu sé nauðsynlegt í styttri hjóltúra (sjá hér fyrir klæðnað í styttri hjóltúra). Það er mjög misjafnt milli manna hvað virkar og breytileikinn (og sannfæringin) er svo mikill að það jafnast á við trúarbrögð. Þessvegna er erfitt að gefa nákvæmar leiðbeiningar, þ.a. hér er frekar um „almenn góð ráð“ að ræða. Mestu púðri eyði ég í að lýsa klæðnaði fyrir blautt, hvasst og/eða kalt veður, það er jú lítið mál að klæða sig fyrir góða veðrið.
Fötin mynda heild. Öll fötin sem þú ert í hverju sinni mynda einhverskonar heildar fatapakka sem þjónar margskonar hlutverki t.d. að fela bossann, halda þér heitum, draga fram / hylja vöxtinn o.s.frv, en þessi grein er bara skrifuð með það í huga að fatapakkinn haldi manni heitum og þurrum og hefti ekki hreyfingarnar þ.a. auðvelt sé að hjóla. Fatapakkinn er svo settur saman úr mörgum flíkum, þær geta unnið saman eða hver á móti annarri. Í flestum tilfellum er fatapakkinn settur saman úr lögum, t.d. eru nærbolur, peysa og jakki eru hvert í sínu laginu en nærbolur, nærbuxur og sokkar eru í sama laginu (innsta lagi). Það er mjög hentugt að hugsa fatapakkann á þennan hátt, því þá er hægt að láta mismunandi lög vinna að mismunandi markmiði.

Innsta lagið:
Aðalatriðið er að innsta lagið sé úr efni sem heldur rakanum (svitanum) frá líkamanum. Það eru til allskonar fín gerviefni sem eru góð í þetta (heita oft „dry-„eitthvað eða „active-„eitthvað) og þekkjast á því að þau koma næstum þur beint úr þvottavélinni. Gerviefnin eru venjulega ekki hlý, sem er kostur í hita (en ekki endilega ókostur í kulda).
Hinn möguleikinn er ull. Þá er merino-ull (af merino kindum held ég?) tær snilld, mjög mjúkar (það klæjar fáa undan merino-ull), þunnar og hlýjar flíkur (en reyndar rándýrar oftast). Auðvitað eru til fleiri ullarefni sem virka, t.d. ullfrotte eða bara Álafoss plötulopi. Munurinn á ull og gerfiefnum er helst sá að gerviefnin anda betur og koma rakanum frá sér, en ullin er hlýrri, andar verr en heldur einangrunargildinu þó hún sé orðin rök (vegna þess að trefjarnar eru holar að innan). Bómull er hinsvegar einstaklega léleg sem innsta lag, safnar í sig raka og heldur að líkamanum þ.a. manni verður kalt ef (þegar) maður svitnar. Flestir (ég líka) flaska oft á nærbuxunum, nota bómull og verður kalt eða fá nuddsár á viðkvæma staði (sem er annar stór galli við bómullina).

Einangrunar lagið:
Ef það er kalt getur verið mjög gott að hafa sérstakt lag í fatapakkanum til einangrunar. Reyndar er sjaldan svo kalt að það borgi sig að vera í buxum sérstaklega til einangrunar, venjulega dugar peysa. Hér gildir að velja þunnar flíkur, það er betra að nota fleiri þunnar en eina þykka.
Best er að nota efni sem anda vel, til þess að koma rakanum lengra frá líkamanum, t.d. ull, flís eða önnur gerfiefni. Bómull dregur í sig raka, en það er þó skárra að nota bómull í þessu lagi heldur en í innsta laginu. Það getur virkað mjög vel að nota flíkur sem eru hannaðar sem innsta lag (nærboli, síðar nærbuxur) í einangrunarlagið líka. T.d. að vera í einum eða tveimur ullar nærbolum utanyfir gerfiefnabol (í staðinn fyrir flíspeysu).

Hlífðarlagið:
Tilgangurinn er náttúrulega að verjast vindi og úrkomu. Hér gildir að velja eftir aðstæðum og ekki of þykkar flíkur. Það er best að nota ekki sömu flíkurnar til hlífðar og til einangrunar (ekki nota þykkar úlpur).
Gott er að nota öndunarefni, en þau geta verið dýr og slitnað hratt. Enn betra er að hægt sé að opna (t.d. rennilása) á fleiri stöðum en bara á bumbunni, t.d. undir höndum. Það ætti að vera hægt að komast af með ódýrari flíkur, velja þá eitthvað sem er vel vatnshelt en andar illa þegar er mjög blautt, en eitthvað sem er bara vindhelt en andar vel þegar það er tiltölulega þurrt.
Það að hjóla í hlífðarfötum sem anda illa þarf ekki að vera svo slæmt ef hægt er að opna að hluta og innri lögin eru hugsuð þannig að þau haldi rakanum frá líkamanum og/eða haldi einangrunargildinu þrátt fyrir einhvern raka.
Á hjóli ertu alltaf með vindinn og úrkomuna í fangið, þ.a. best er að nota fatnað sem er vatns- og vindheldur að framan en með mjög góða öndun að aftan.

Húfur:
Hausinn er sá hluti líkamans sem tapar mestum hita, það er mikið blóðflæði í hausinn og hann er ekki með mikinn fituvef (til einangrunar). Þannig gerir húfa oft meira gagn en peysa eða úlpa. Á hjóli er maður eiginlega alltaf í einhverjum vindi, þ.a. húfur þurfa að vera svolítið vindheldar.
Með húfur gildir eins og með annað að það þarf að koma rakanum frá líkamanum, þ.a. bómull hentar mjög illa.

Fætur:
Það getur verið svolítið erfitt að halda fótunum þurrum og hlýjum á hjóli í blautu veðri. Margir nota legghlífar (eða skóhlífar) á veturna, það hjálpar mikið, en drullusokkur á frambrettið gerir oft jafnvel meira gagn. Það er líka hægt að nota kuldaskó eða gönguskó og nota hlífðarbuxur utanyfir skóna.
Ef hlífðarbuxurnar ná ekki yfir skóna rennur af þeim ofan í skóna. Það gildir sama um sokka og um annað, þeir þurfa að halda rakanum frá líkamanum, þ.a. einhverskonar ullarsokkar eru alltaf sígildir.
Göngusokkar úr gerviefnum geta líka verið góðir ef skórnir anda þokkalega.

Sérstakur hjólreiðafatnaður:

Ýmsar flíkur eru á markaðnum sem eru hannaðar sérstaklega til hjólreiða:
Hjólabuxur með púðum á rassinum eru að margra mati algjör nauðsyn þegar setið er á hjólinu lengur en í nokkrar mínútur í einu.
Hjólajakkar eru frekar þröngir og hafa þannig snið að þeir eru síðir að aftan en styttri að framan. Þetta er mjög þægilegt, en venjulegir jakkar eiga það til að pokast framan á manni og hleypa þá vindinum undir jakkann.
Bæði jakkar og buxur fást sem eru þannig að þeir eru vatns- og/eða vindheldir að framan en með mjög góðri öndun að aftan.

%d bloggurum líkar þetta: