Að kaupa notað hjól

Að kaupa notað hjól til að hjóla til vinnu eða skóla er stórsniðugt. Oft er hægt að fá ágætis hjól sem eru tiltölulega lítið notuð fyrir lítinn pening. Hjólin geta verið nokkurra ára gömul, en jafnvel eldgömul hjól geta verið fyrirtaks tæki. Grundvallaratriðið við kaup á notuðu hjóli er að vita hvað maður er að kaupa, þekkja hjólið og eigin þarfir. Ef notað hjól er keypt í reiðhjólaverslun getur sölumaðurinn hjálpað mikið við að svara þessum spurningum, en ef verslað er annarsstaðar verður maður að treysta á sjálfan sig. Þá getur verið sniðugt að leita ráða hjá einhverjum sem maður treystir og þekkir betur til hjóla en maður sjálfur. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar notað hjól er keypt.

Í hvað á að nota hjólið?
Það er ótrúlegt hvað það er erfitt að svara þessari spurningu. Algengasta svarið er „mest innanbæjar en ég verð líka að geta farið í smá torfærur“. Þá er algjörlega upp og ofan hvað „smá torfærur“ eru og hvort nokkurntíman reynir á þessa kröfu. En það er mikilvægt að átta sig á að gróf dekk hafa mikið meira viðnám á malbiki en slétt dekk. Stórir demparar eru rándýrir og þungir og eru óþarfir innanbæjar. Gírar í tugatali eru óþarfir á götunum en krefjast viðhalds. Því getur þurft að fórna miklum þægindum í innanbæjarhjólreiðum fyrir kröfuna um að vera á torfæruhjóli. Fyrir marga gæti verið skynsamlegra að eiga 2 ódýrari hjól heldur en 1 dýrara sem er málamiðlun milli götuhjóls og torfæruhjóls.

Stærð á hjóli
Mikilvægt er að stærðin sé rétt, því meira og hraðar sem á að hjóla, því mikilvægara er það. Því er mjög erfitt að segja til um hversu mikil skekkja frá réttri stærð má vera, því meira sem nota á hjólið, því minni skekkju komast menn upp með. Til eru nokkrar þumalputtareglur sem ég gæti nefnt. T.d. að þegar staðið er yfir slánni (með c.a. 30 cm á milli fóta) á að vera hægt að lyfta framhjólinu um c.a. 5 cm, en þessi regla gildir illa um hjól með hallandi slá. Í staðinn mætti segja að c.a. 10-15 cm ætti að sjást af sætisrörinu þegar sætið er í réttri hæð (fótur nánast beinn með pedala í neðstu stöðu en hné ekki læst).

Stórmarkaðahjól
Undanfarinn áratug hafa fengist hjól í stórmörkuðum og byggingavöruverslunum auk hjólaverslana. Ég ráðlegg þeim sem eru að leita að notuðu hjóli að kaupa ekki þau hjól sem upphaflega voru keypt í stórmörkuðum og byggingavöruverslunum. Ástæðan er einfaldlega sú að oft eru þetta mjög léleg hjól þó þau geti litið vel út. Þau eru ekki öll ónýt (ég veit um nokkur góð), en líkurnar á að lenda á góðu hjóli eru mikið minni heldur en ef keypt er hjól frá hjólaverslun.
Framleiðendur svokallaðra stórmarkaðahjóla eru frægir fyrir það að spara eins og hugsast getur á stöðum sem sjást ekki í búðinni. T.d. eru legur oft lélegar, þyngri og/eða lélegri málmur notaður og val íhluta byggt á góðum tilboðum íhlutaframleiðenda frekar en gæðum eða samhæfni við aðra íhluti. Reiðhjól koma ósamsett í pappakössum frá framleiðanda til seljanda. Seljandi setur hjólið saman (eða fær einhvern til þess). Það er alls ekki sama hvernig þetta er gert. T.d. er frágangur á bremsum mikið öryggisatriði og hvernig legur eru hertar skiptir miklu máli um endingu þeirra. Gjarðirnar eru líka algengt vandamál. Að teina upp reiðhjólagjörð er eiginlega listgrein. Ódýrar gjarðir eru gerðar í vélum án þess að mannshöndin komi nærri. Ef þær eru ekki lagaðar til af kunnáttumanni skekkjast þær venjulega fljótlega. En ef kunnáttumaður lagar til gjörðina við samsetningu á hjólinu, eða teinar gjörðina upp frá grunni, má búast við mikið betri endingu án þess að gjörðin skekkist. Það er nánast ómögulegt að sjá hvort gjörð sé almennilega teinuð eða ekki þegar dekkið er komið á, við verðum að treysta samsetningaraðilanum fyrir því að hafa gert það almennilega. Reiðhjólaverslanir selja almennt vel samsett hjól, en ég treysti ekki stórmörkuðum eða byggingaverslunum til þess.

Bremsur
Bremsur sem virka almennilega eru mikilvægt öryggistæki og því mikilvægustu íhlutirnir (komponentarnir). Nokkrar grunntegundir finnast á notuðum hjólum:

 • Diskabremsur eru almennt góðar en ég þekki þær þó ekki vel.
 • V-bremsur eru bestu „gjarðabremsurnar“.
 • „center-pull“ gjarðabremsur virka ágætlega líka, en ekki jafn vel og gjarðabremsurnar. Um þær gildir líka að
 • „side-pull“ gjarðabremsurnar eru lökustu bremsur sem finnast. Ef þær eru vandaðar og í góðu lagi geta þær þó verið alveg fyrirtaks bremsur.
 • Fótbremsur eru almennt góðar og viðhaldslitlar. Þær mæli ég samt með að prófa áður en hjólið er keypt.
 • Skálabremsur eru mjög sjaldgæfar í dag en voru frekar algengar fyrir 20-30 árum. Þær þekki ég ekki en skilst að þær geti verið fínustu tæki, nokkuð viðhaldslitlar en þungar.
  "Side-pull"

  "Side-pull"

  V-bremsur

  V-bremsur

  "Center-pull"

Með allar gjarðabremsur þarf að hafa í huga að gjörðin sé góð. Gjarðabremsur á stálgjörð virka mjög illa í bleytu, ég mæli alls ekki með þessari blöndu. Athugið að á V-bremsum og center-pull bremsum að á þeim sé lítil skrúfa til að stilla fjöðrina til að miðjustilla bremsurnar, þetta er mikill kostur. Ef skrúfuna vantar verður alltaf vesen á að stilla bremsurnar. Gjarðabremsum fylgir alltaf eitthvert viðhald, stillingar og púðaskipti, jafnvel gjarðaskipti. Því vandaðri sem bremsurnar eru, því auðveldara er viðhaldið. Á V-bremsum og center-pull er stundum pinni í gjörðinni sem heldur við fjöðrina (þetta á ekki alltaf við). Ef þessi pinni er brotinn er stellið oftast ónýtt. Varið ykkur því á hjólum þar sem þessar fjaðrir virka ekki (því stellið gæti verið ónýtt).
Handföngin á handbremsunum þurfa að vera þannig að maður geti hjólað alltaf með fingurna tilbúna á handföngunum. Á vandaðri bremsum er hægt að stilla fjarlægðina frá stýri að handfanginu.

Gjarðir
Að teina upp góðar reiðhjólagjarðir er eiginlega listgrein. Þar þarf kunnáttumaður að vera að verki, ekki er hægt að treysta vélum fyrir verkinu. Því eru góðar gjarðir dýrar, þær er erfitt að fjöldaframleiða. Því þarf að veita gjörðum athygli þegar notað hjól er skoðað. Ef gjörðin er skökk eða brotin (sprunga) eða með brotna teina, getur verið dýrt að laga það. Þ.e.a.s. ef maður er ekki tilbúinn til að læra sjálfur að teina upp gjörð (það tók mig heila helgi að teina upp mína fyrstu gjörð).

Keðja og tannhjól
Afturtannhjól og keðja eru ekki mjög dýrir íhlutir, en framtannhjól eru dýr. Því þarf að skoða framtannhjól frekar vel þegar notað hjól er skoðað. Aðalatriðið er að það sé ekki skakt og ekki mjög slitið. Eins þarf að skoða að sveifarnar séu vel festar á öxulinn, ef þar er hlaup þarf að skipta um öxul og sveifar og oft eru tannhjólin áföst sveifinni. Á vandaðri hjólum er hægt að losa framtannhjólin af sveifinni og skipta um stök tannhjól. Þetta er mikill kostur, og oftast þá um vandaða íhluti að ræða.
Afturtannhjól og keðja slitna með notkun. Hraðar ef smurning er léleg. En það er auðvelt og frekar ódýrt að skipta um keðju og afturtannhjól eru oftast frekar ódýr líka.

Gírar
Gírar eru mikilvægir þar sem brekkur eru. Þar sem er flatt eru þeir ekki svo mikilvægir. En gíra í tugatali þarf ekki innanbæjar. Nafgírar eru oftast vandræðalausir, hvort sem þeir eru 3, 5, 7, 8 eða 14. En utanáliggjandi gírar geta verið frekar kenjóttir. Fjöldinn skiptir ekki öllu máli, 5 duga flestum innanbæjar. Gírskiptar eru í stöðugri þróun, því gildir sú þumalputtaregla að því nýrri sem búnaðurinn er því betri er hann. En einnig er mikill gæðamunur eftir týpum (verði) frá sama tímabili. Því þarf maður að vera svolítið vel að sér til að meta hversu góður búnaðurinn er. Gírskiptar vinna saman með tannhjólunum við að koma keðjunni milli þeirra. Tannhjól hafa líka þróast með árunum og því er ekki tryggt að nýr gírskiptir vinni vel með gömlum tannhjólum og öfugt. STI skiptar (segja „klikk“ þegar maður skiptir, ekki stiglausir) voru bylting fyrir alla hjólreiðamenn. En til þess að STI gírar virki þarf allt að vera í lagi, vírar liðugir í börkum, framskiptir rétt staðsettur og samhæfur við tannhjól, öxullengd og þykkt stells. Afturskiptir samhæfur fjölda tannhjóla og festingin ekki bogin (algengt vandamál). T.d. á mínu hjóli er festingin fyrir afturskiptinn bogin, þ.a. litlu tannhjólin í skiptinum eru ekki lengur lóðrétt. Þetta má rétta, en það fer alltaf í sama farið aftur þegar tekið er á. Ég leysti vandann með því að nota stiglausa skipta, það dugar mér vel.

Legur
Ég hef rekið mig á að legur í notuðum hjólum eru oft stífar. Það getur verið vegna þess að þær eru ofhertar, ósmurðar eða í vatnsbaði eða bara orðnar lélegar. Þetta þarf þó ekki að vera mikið vandamál. Legur eru ódýrir íhlutir, en það borgar sig að láta kunnáttumann sjá um viðhald á þeim. Oftast þarf sérverkfæri til að þjónusta sveifarlegur og stýrislegur.

Stell
Almennt má segja að reiðhjólastell séu úr stáli eða áli. Reyndar eru til stell úr koltrefjum, titanium ofl, en við skulum ekki hafa áhyggjur af þeim hér. Stál stell eru úr mismunandi fínu stáli og með misvönduðum frágangi, allt frá allara ódýrustu og lélegustu stellum upp í það allra vandaðasta. Ég þekki ekki nöfn á nógu mörgum stáltýpum til að kommenta á þau, en held að eftir því sem stellið er léttara er stálið vandaðra of fínna. Samsetningar á rörum geta gefið vísbendingar um hversu vönduð varan er, fallegar suður trompa ljótar suður og slífasamsetningar trompa fallegar suður (með mjög grófri nálgun).
Álblöndur notaðar tíl hjólreiða eru líka mismunandi. Einföld þumalputtaregla er að því hærra númer sem blandan hefur, því betur henti hún til hjólreiða.
Stál stell gefa meira eftir en álstell (almennt). Stálstell eru ekki endilega ónýt þó eitthvað sjáist á þeim. Það er hægt að sjóða í þau og litlar dældir eru ekki svo hættulegar. Ryð getur þó verið mikið vandamál, því þarf stundum að hafa áhyggjur af rispum. Munið að stálstell geta líka ryðgað að innan!
Álstell eru stífari og stökkari en stálstell. Álstell með sprungu eða dæld er ónýtt (kannski með einhverjum undantekningum). Álstell ryðga ekki, en íhlutirnir eru oft að hluta úr stáli, þ.a. þar getur leynst leiðinlegt ryð. Rispur í lakki á álstelli skipta engu máli.

Aldur
Hjól endast nánast endalaust með réttu viðhaldi. 150.000 km er vel hugsanlegt fyrir vandað hjól, þ.a. ekki afskrifa hjól bara af því að það er gamalt. En það getur verið kúnst að finna varahluti. Hjólaverkstæði sem hafa langa sögu eru reyndar mjög hjálpleg og eiga ýmistlegt til í geymslunni. Á sama hátt getur verið mikill sjarmi og gaman að því að hjóla á gömlu hjóli í óaðfinnanlegu ástandi. Svo vil ég nefna það sérstaklega að demparalaus fjallahjól frá c.a. 1990-2000 eru oft frábær og nánast ódrepandi samgönguhjól með mjög litlum breytingum.
Þróun í hjólum undanfarin ár hefur að mestu beinst að íþróttahjólreiðum frekar en samgönguhjólreiðum. T.d. þróun i gírum, dempurum, bremsum og stellum. Það sem mest hefur nýst samgönguhjólreiðum er þróun í nafgírum, nafrafölum, díóðuljósum og kannski bremsum að einhverju leiti. Því verða menn að hafa svolítið í huga hversu mikið menn eru tilbúnir að borga fyrir nýrra hjól fram yfir gamalt.

Hollráð á uppboðum:

 • Mikilvægt að vita hvað maður vill fyrirfram. Maður hefur ekki svo mikinn tíma til að gera það upp við sig á uppboðinu.
 • Setja sér hámarksupphæð áður en byrjað er að bjóða og standa við það. Ef maður er tilbúinn að borga hvað sem er fyrir hjólið, þá verður það manni dýrt.
 • Ekki bjóða í eitthvað sem maður þekkir ekki, þá er skynsamlegra að spila bara í lottóinu.
 1. Engar athugasemdir ennþá.
 1. maí 6, 2010 kl. 12:47 e.h.
 2. maí 26, 2011 kl. 9:27 f.h.
Lokað er á athugasemdir.
%d bloggurum líkar þetta: