Hjólað í vinnuna, nýtt æfingatímabil!

maí 25, 2011 1 athugasemd

Í dag lýkur vinnustaðakeppninni „hjólað í vinnuna 2011“. Mikið hefur verið hjólað og margir haft gagn og gaman af, sum markmið hafa náðst en önnur ekki. Allir sem þátt tóku eru sigurvegarar, þó einhverjir þykist vera meiri sigurvegarar en aðrir.

En nú er alls ekki rétti tíminn til að henda hjólinu inn í skúr, því á miðnætti í kvöld hefst æfingatímabilið fyrir „hjólað í vinnuna 2012“!

Auglýsingar

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 25, 2011 Færðu inn athugasemd

Léttu af þér.

Hjólið þitt er burðardýr, hannað til að bera þig en getur líka borið farangurinn þinn. Reyndu að koma farangrinum á hjólið frekar en að hafa hann á bakinu. Þyngd á bakinu eykur álag á mjóhrygginn, rassinn og úlnliðina (ef þú hallar fram á hjólinu þínu) og gerir þér erfiðara fyrir að halda jafnvægi á hjólinu.

Bögglaberar, körfur og töskur til að bera dótið þitt er til í gríðarlegu úrvali og af öllum tegundum, það er örugglega hægt að finna eitthvað sem hæfir þínum þörfum og smekk. Ef hjólabúðirnar geta ekki leyst málið er allur fjandinn til á netinu.

Karfa

Mynd frá publicbikes.com

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 24, 2011 Færðu inn athugasemd

Brostu.

Hvort sem þetta er gömul og væmin klisja eða vísindalega sönnuð staðreynd, þá virkar þetta bara. Hjóltúrinn verður enn betri með bros á vör. „Smælaðu framan í heiminn og þá mun heimurinn smæla framan í þig“. „Brosið er sólskin sem vermir allt“. Að auki koma aðrir betur fram við þig í umferðinni, það er stundum kallað „Mary Poppins áhrifin“.

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 23, 2011 Færðu inn athugasemd

Ekki pína þig.

Stundum langar mann bara ekki til þess að hjóla í vinnuna. Það getur verið vegna veðurs (eða öskufalls), maður er bara óvenju þreyttur eða jafnvel eitthvað persónulegra en það. Þá er betra að hoppa bara upp í strætó, fá far eða grípa bílinn frekar en að pína sig til þess að hjóla og hafa enga ánægju af því. Það kemur nýr hjóladagur á morgun!
Ef maður pínir sig til að hjóla alltaf, alveg sama hvað, eru líkur á því að maður gefist alveg upp og hætti því alveg (eða þangað til „hjólað í vinnuna“ byrjar aftur að ári). En ef viðhorfið er þannig að það sé í lagi að sleppa úr endrum og eins eru meiri líkur á því að hjólreiðarnar geti orðið þáttur af lífstílnum til frambúðar, jafnvel þó engin vinnustaðakeppni sé í gangi. Það eru mikið sætari verðlaun heldur en þau sem eru í boði í vinnustaðakeppninni sjálfri!

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 20, 2011 Færðu inn athugasemd

Verið samferða.

Það er mjög skemmtilegt að hjóla með einhverjum öðrum, t.d. maka eða vinnufélaga hluta af leiðinni. Það er líka hægt að vera samferða ókunnugum sem eru að hjóla í sömu átt. Í stað þess að hamast við að komast fram úr þeim ókunnuga er tilvalið að slaka aðeins á og bjóða honum góðan daginn, jafnvel spjalla aðeins við hann t.d. um veðrið og Icesave.
Einn af kostum samgönguhjólreiða er að hjólreiðamenn hafa sýnileg andlit og geta spjallað saman, ólíkt ökumönnunum sem eru lokaðir af og geta ekki átt samskipti nema með stefnuljósum og flautum. Ég hvet ykkur til þess að prófa að nýta þessa kosti.

Mynd eftir Mikael Colville-Andersen

Mynd eftir Mikael Colville-Andersen

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 19, 2011 Færðu inn athugasemd

Meira loft í dekkin!

Reiðhjóladekk þola háan loftþrýsting, algeng gildi eru frá 65 pundum (65 psi = 4,4 bar) til 100 (100 psi = 6,9 bar). Hæsti leyfilegur loftþrýstingur er stimplaður á dekkin. Til viðmiðunar er algengur þrýstingur í fólksbíladekkjum 28-32 pund.
Því hærri sem loftþrýstingurinn er því auðveldara er að hjóla, hjólið rennur betur vegna þess að viðnámið er minna. Munurinn getur verið mjög mikill. Auk þess er algengt að dekk springi vegna of lágs loftþrýstings þegar dekk verður fyrir höggi (slangan klemmist milli gjarðar og hindrunar, t.d. kanntsteins). Ég hvet ykkur til að prófa að hjóla með fullan þrýsting í dekkjunum, það kostar ekki neitt og það eru engin bónusstig í hjólað í vinnuna fyrir að puðast áfram á linum dekkjum.

Hjólað í vinnuna, heilræði dagsins

maí 18, 2011 Færðu inn athugasemd

Hjólið hægar. Nei, ennþá hægar en það!

Nú er vor í lofti og vinnustaðakeppni í fullum gangi. Fjöldi hjólreiðamanna með besta móti og gaman að vera til. Ökumenn taka óvenju mikið tillit til hjólandi og gangandi (hjólandi og gangandi umferð hefur umferðarróandi áhrif). Margir eru að taka hjólið fram eftir vetrarhvíld (eða jafnvel lengri hvíld) og eru kannski örlítið stirðir í hjólavöðvunum og móðari en þeir eru vanir. Þá er upplagt að fara rólega, jafnvel mjög rólega. Það eru engin bónusstig í hjólað í vinnuna fyrir að hjóla hratt.

Njótið vorsins, hlustið á fuglana, fyllið lungun af hreinu lofti og skoðið blómin. Hundsið hraðamælinn, klukkuna og bílana sem eru að verða alltof seinir eitthvert (sennilega að kaupa bensín og kort í ræktina). Veljið rólega og fallega leið í stað þeirrar styðstu, jafnvel einhverja sem þið hafið aldrei hjólað áður. Njótið þess að hjóla!