Heim > Uncategorized > Spítalavegur á Akureyri

Spítalavegur á Akureyri

Spítalavegur er mjög mikilvæg tenging milli brekku og Innbæjar, t.d. leiðin fyrir Innbæinga á leið í Brekkuskóla, Sundlaugina og í raun flest annað en Miðbæinn. Þessi leið er líka mikilvæg tenging safna í Innbænum við Lystigarðinn og Sundlaugina. Aðrir valkostir fyrir hjólandi og gangandi eru Krókeyrarbrekkan, Búðargil, Menntavegurinn, Sigurhæðabrekka, kirkjutröppurnar og Grófargil. Þessir valkostir við Spítalaveginn eru allir úr leið, brattir, með engri vetrarþjónustu og/eða með tröppum.  Því er Spítalavegurinn lykiltenging fyrir hjólandi og gangandi fólk með vagna, en einnig fyrir annað gangandi fólk sérstaklega á veturna.

Spítalavegurinn er mjór miðað við að þar er tvístefna og ekki með neina eiginlega gangstétt, heldur deila gangandi, akandi og hjólandi sömu akbraut. Bifreiðum er lagt í götunni á kafla. Hluta Spítalavegar geta gangandi og hjólandi sleppt með því að fara stíg/troðning sem liggur niður í Hafnarstræti. Sá stígur er ekki með neinni vetrarþjónustu, mjög brattur á kafla og þar er engin lýsing.

Um Spítalaveg er töluverður gegnumakstur og umferðarhraði lygilega hár miðað við aðstæður og löglegan hámarkshraða. Ef hægt væri að draga úr gegnumakstri eða koma alveg í veg fyrir hann væri það mikil samgöngubót fyrir gangandi og hjólandi umferð milli Suðurbrekku og Innbæjar.  Valkostir við Spítalaveg fyrir akandi eru Krókeyrarbrekka, Búðargil og Grófargil.  Akandi umferð sem hægt væri að bægja frá Spítalavegi myndi líklega dreifast á þessar götur.

Á fundi umhverfisráðs Akureyrarbæjar þann 24. maí 2006 var samþykkt að Spítalavegur verði gerður að vistgötu og að einstefna ætti að vera til norðurs frá Lækjargötu að Steinatröð. Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti svo 20. ágúst 2009 nýtt deiliskipulag fyrir Spítalaveg þar sem Spítalavegur er ekki vistgata, er með 30 km/h hámarkshraða og einstefnu til suðurs milli Lækjargötu og Steinatraðar (sem heitir reyndar ennþá Tónatröð en á að breytast í Steinatröð). Samkvæmt nýja deiliskipulaginu á að gera gangstétt 1,25 m breiða og upphækkaða til aðskilnaðar frá akbraut.  Deiliskipulagið er talið (af höfundum) vera í samræmi við áherslur í gildandi aðalskipulagi um að styrkja stígakerfi bæjarins og auka öryggi vegfarenda.

Breytingin fyrir okkur hjólreiðamenn með nýju deiliskipulagi fyrir Spítalaveg er að við þurfum að fara upp á gangstétt þegar við hjólum upp Spítalaveginn í framtíðinni. Gangstéttinni (sem verður 1,25 m breið) deilum við með gangandi vegfarendum. Á leiðinni niður Spítalaveginn er ólíklegra að við mætum bílum heldur en nú er. En gangstétt sem er 1,25 m breið getur varla talist aðlaðandi hjólaumhverfi. Þar sem þetta er mjög mikilvæg tenging í hjólaleiðum bæjarins ættum við kannski að setja markið aðeins hærra, hér eru tillögur um betri lausn:

1. Breyta Spítalavegi í tvo botnlanga með því að setja upp hindrun neðan við Tónatröð eða jafnvel neðan við Spítalaveg 9. Kvöð er á Spítalavegi um gegnumakstur neyðarbíla, þ.a. þessi hindrun þyrfti að vera með fjarstýrðum drifbúnaði. Þetta myndi útiloka gegnumakstur bíla en umferð gangandi og hjólandi væri óheft.
2. Breyta Spítalavegi í einstefnugötu fyrir akandi umferð en leyfa tvístefnu fyrir hjólandi umferð. Þetta er lausn sem notuð hefur verið með góðum árangri t.d. í Hollandi.
3. Leggja góðan göngu- og hjólreiðastíg úr Hafnarstræti þar sem núverandi stígur er, í gegnum skóginn neðan Spítalavegar og alveg upp Í Eyrarlandsveg. Stígurinn þyrfti að vera upplýstur og með góðri vetrarþjónustu (ruddur áður en skólar hefjast á morgnana). Tenging þyrfti að vera upp á Spítalaveg til móts við Tónatröð.

Auglýsingar
  1. Engar athugasemdir ennþá.
  1. No trackbacks yet.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: