Heim > Uncategorized > Miðbæjarskipulag á Akureyri frá sjónarhóli hjólreiðamanns

Miðbæjarskipulag á Akureyri frá sjónarhóli hjólreiðamanns

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi 2. febrúar 2010 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi miðbæjar – austurhluta. Sitt sýnist hverjum um þessa tillögu (aðallega þó um síkið), en hér verður kafað aðeins ofan í tillöguna frá sjónarhóli hjólreiðamanns.

Í greinargerð um tillöguna segir í kafla 5.7 „Stefna – Samgöngur“:

Öflugur miðbær byggir á góðu aðgengi, hvort sem er fyrir gangandi, hjólandi eða akandi vegfarendur og þá sem ferðast um með strætisvagni. Nú er vel séð fyrir þörfum þeirra sem ferðast um á bíl á kostnað annarra, einkum fótgangandi og hjólreiðafólks. Skipulagshugmyndir miða að því að koma á jafnvægi milli ólíkra samgöngumáta með því að mæta þörfum þeirra allra, þó þannig að dregið verði úr þörf fyrir notkun einkabílsins.

Net hjólreiðastíga mun tengja miðbæinn vel við aðliggjandi byggð. Væntanlega hvetur það til aukinnar notkunar reiðhjóla og þar af leiðandi heilbrigðari og umhverfisvænni lífsstíls. Nýju reiðhjólastígarnir falla vel að miðbæjarskipulaginu, þar sem einnig verða góð reiðhjólastæði og reiðhjólaskýli fyrir almenning. Jafnframt er gert ráð fyrir reiðhjólageymslum í öllum nýjum byggingum.

Þetta lofar mjög góðu, stefnt að því að minnka vægi bíla og talað um heilt net hjólreiðastíga, reyndar er ekki stór hluti þess innan skipulagssvæðisins þ.a. þar verður að treysta á að aðrar áætlanir bæjaryfirvalda gangi eftir.

Lítum fyrst á þann hluta „nets hjólreiðastíga“ sem kveðið er á um í skipulagstillögunni (sjá hér til hægri):

Viðbótin við núverandi stígakerfi er stígur meðfram Drottningarbraut sem liggur svo í hlykkjum um uppfyllinguna á Torfunefinu. Þetta á að vera göngu- og hjólreiðastígur. Eins og skipulagshöfundar hafa teiknað hjólaleiðirnar liggja þær á götum, nema meðfram Drottningarbraut (þar er þessi nýji stígur), Glerárgötu (sem á að breyta í 30 km/h) og Strandgötu (sem á að breyta í 30 km/h og þannig að aksturstefnur verða ekki aðskildar). Ennfremur er í texta um lýsingu á Strandgötu talað um aðrar hjólaleiðir milli norðurs og suðurs talin upp Hafnarstræti og Torfunefsbryggja, en ekki Glerárgata.  Ekki skil ég afhverju hjólin eiga heima á gangstéttinni meðfram þessum götum. Meira að segja setja skipulagshöfundar hjólin upp á gangstétt við Strandötu 19, sem er sennilegast einn alversti staður í bænum til þess að mæta gangandi vegfaranda (það vita þeir sem hafa prófað). Semsagt, „net hjólreiðastíga“ er göngu- og hjólreiðastígur meðfram Drottningarbrautinni til suðurs. Og hjólin eiga að vera uppi á gangstétt meðfram nýju 30 km/h götunum, a.m.k. samkvæmt uppdrættinum af „neti hjólreiðastíga“.

Þessi eini nýji stígur, meðfram Drottningarbrautinni, liggur samsíða Hafnarstrætinu sem er tilvalið fyrir hjólandi og gangandi samgöngur. Þetta verður vonandi fyrirtaks útivistarstígur, en Hafnarstrætið er alltaf skjólsælla, þar er svotil engin umferð, auk þess sem það liggur beinna við þeim sem eiga leið milli innbæjar og miðbæjar.

Göngu- og hjólreiðastígur á að liggja samsíða Glerárgötu meðfram sjónum (hann er reyndar til staðar í dag en breytist mikið með síkinu og uppfyllingu við Torfunef). Af myndum í greingargerðinni og umhverfisskýrslunni má sjá að upphaflega stóð til að þessi stígur færi yfir síkið á sérstakri brú (göngu- og hjólreiðabrú). Hætt hefur verið við hana og í staðinn er stígurinn tekinn í tvær vinkilbeygjur og settur upp á sömu brú og akandi umferð. Þetta skemmir stíginn mikið og dregur úr tengingu síkisins (og þá miðbæjarins) við Pollinn. Ég leyfi mér að giska á að þessi breyting hafi verið gerð vegna tregðu Vegagerðarinnar til breytinga á Glerárgötu.

Skoðum svo fyrirhugaðar breytingar á götunum. Hér gef ég götunum einkunn (á skalanum A-F, A best) m.t.t. hversu hentugar þær eru til hjólreiða (þ.e.a.s. akbrautirnar) eftir flokkunarkerfi sem er í smíðum:

Ráðhústorg, Hafnarstræti (göngugatan) og Torfunefsbryggja verða skilgreind sem „sameiginleg svæði fyrir umferð akandi, gangandi og hjólandi“. Eftirfarandi lýsing á þessum „sameiginlegu svæðum“ er í kafla 6.1.2 í greinargerðinni:

Sameiginleg svæði akandi, gangandi og hjólandi
Með því að marka sameiginleg svæði fyrir akandi, gangandi og hjólandi vegfarendur breytast almenningsrýmin þannig að þau nýtast betur og verða manneskjulegri. Þetta næst með því að:
Stækka það svæði sem gangandi og hjólandi vegfarendur hafa til umráða.
Veita gangandi forgang á bílaumferð.
Hægja á bílaumferð.
Gera lykil almenningsými og götur aðlaðandi.

Þau svæði sem eiga að falla undir þessa skilgreiningu eru vistgötur í dag (nema Torfunefsbryggjan, sem er bryggja) þ.a. ég get ekki séð að það sé verið að breyta neinu. Gangandi umferð hefur forgang á bílaumferð nú þegar. Það má hjóla og ganga hvar sem er! Hámarkshraði í vistgötum er 15 km/h eða gönguhraði þegar einhver gangandi umferð er. Ráðhústorg virðist verða óbreytt nema að bílastæðin flytjast frá suðausturhlið á suðvesturhlið torgsins, auk þess sem reiðhjólaskýli virðist vera teiknað á skipulagsuppdráttinn við norðvestur horn torgsins (ekki er minnst á það í greinargerðinni). Skipulagsskilmálar um Hafnarstrætið sýnast mér vera uppfylltir í dag nema að „hjólaskýli“ og „hjólagrindur“ skulu staðsettar á hentugum stöðum við götuna, hjólaskýlið er teiknað á skipulagsuppdrætti á horninu við Kaupvangsstræti (framan við Eymundsson).
Hafnarstræti, Ráðhústorg og Torfunefsbryggja fá einkunina A við flokkun m.t.t. hjólreiða. Þó mætti gera Hafnarstrætið enn meira aðlaðandi fyrir hjólreiðamenn með því að láta einstefnuna aðeins ná til vélknúinna ökutækja, þ.a. hjóla mætti á akbrautinni í báðar áttir. Nú verða hjólreiðamenn að vera á göngusvæðinu þegar hjólað er til suðurs, þar eru þeir gestir og verða að veita gangandi forgang og geta því ekki farið mikð hraðar en á gönguhraða ef gæta á fyllsta öryggis.

Glerárgata á að verða 30 km/h og ein akrein í hvora átt, aðskildar aksturstefnur og gangstétt á milli. Hér má sjá götuprófíl af Glerárgötunni eins og skipulagshöfundar sjá hana fyrir sér.

Í kaflanum um „bindandi skilmála“ fyrir Glerárgötu  er reyndar ekki minnst á fækkun akreina úr 4 í 2. Þetta skilst mér (orðrómur) að sé vegna þess að breytingarnar eru skilgreindar hjá Vegagerðinni (Glerárgata er þjóðvegur) sem „tilraunaverkefni“ sem bænum ber að breyta til baka ef „tilraunin misheppnast“. Að auki fylgir sérstakur „skýringaruppdráttur“ með skipulagsgögnunum þar sem Glerárgatan er teiknuð með 4 akreinum. Loks má geta að vegna breytinganna á Glerárgötu er skipulagstillagan matsskyld samkvæmt lögum um „umhverfismat áætlana“ samkvæmt áliti skipulagsstofnunar (ekki get ég ímyndað mér að skipulagstillagan komi illa út úr því mati).  Fyrir hjólreiðamenn sem vilja hjóla á götunni er það aðskilnaður akstursstefnanna sem er óheppilegur. Með svona mjóar akreinar (3,25 m til norðurs, 3,4 m til suðurs) verður hjólreiðamaður að taka ríkjandi stöðu á akreininni og ekki hleypa bílum framúr. Reyndin verður að hjólreiðamenn halda sig á gangstéttinni eða fara aðrar leiðir þegar einhver umferð er.

Í lýsingunni á götunni er tekið fram (eins og í lýsingum á öðrum götum) að hjólreiðar eru heimilar á akbrautunum. Hjólagrindur skulu staðsettar á hentugum stöðum við götuna.
Glerárgata fær einkunina B við flokkun m.t.t. hjólreiða. Akreinar eru óheppilega mjóar, hjólreiðamaður á erfitt með að hleypa annarri umferð fram úr sér. Það vandamál væri ekki jafn slæmt ef gatan væri með 4 akreinum, eða ekki með aðskildum akstursstefnum.

Strandgata, Hofsbót og Skipagata verða 30 km/h götur með samliggjandi akreinum. Breidd akreina er 5 m í Hofsbót (fyrir 2 akreinar), 5,5 m í Skipagötu og 7 m í Strandgötu. Þessar götur eru með það mjóum akreinum að hjólreiðamaður getur ekki hleypt bílum fram úr sér án þess að þeir þurfi að fara yfir á hina akreinina. Göturnar eru þó það stuttar að það er ekki mikið vandamál, þó geta hjólreiðamenn búist við einstaka dónaflauti. Við allar göturnar skal hjólagrindum komið fyrir á hentugum stöðum. Þó þess sé ekki getið í skipulagsgreinargerðinni ( í kaflanum um Strandgötu) er reiðhjólaskýli teiknað á skipulagsuppdrættinum við hornið á Glerárgötu þar sem BSO er núna.
Strandgata, Hofsbót og Skipagata fá einkunina B við flokkun m.t.t. hjólreiða. Akreinarnar mættu vera breiðari til þess að hjólreiðamenn geti aðuveldar hleypt bílum fram úr.

Kaupvangsstræti (gilið) verður óbreytt nema með 30 km/h hámarkshraða en er með aðskildar akstursstefnur (aðeins parturinn neðan við Hafnarstræti er inni á skipulagssvæðinu). Akreinarnar hér eru það mjóar að hjólreiðamenn geta ekki hleypt bílum framúr, en þetta er svo stuttur kafli að það skiptir ekki máli. Engar hjólagrindur eða skýli eru ráðgerðar við Kaupvangsstrætið.
Kaupvangsstræti fær einkunina B við flokkun m.t.t. hjólreiða.

Hafnarsund og Hofssund eru göngustígar sem liggja austur-vestur (Hafnarsund er sundið milli Íslandsbanka og Græna Hattarins). Þetta eru gönguleiðir, bifreiðastöður bannaðar og aðeins þjónustuakstur leyfður. Breidd er skrifuð 9 m.
Flokkun gatna m.t.t. hjólreiða á ekki við um þessa „göngustíga“. Hjólreiðamenn eru „gestir“ og verða að veita gangandi forgang. Hraði hjólreiðamanna getur ekki verið mikið meiri en gönguhraði til þess að tryggja öryggi allra.

Bílastæðum kemur til með að stórfækka á skipulagssvæðinu (stærstur hluti nýrra byggingarlóða eru notuð sem bílastæði í dag). Bílastæði við nýbyggingar eiga að vera neðanjarðar og ekið inn í bílakjallarana frá Skipagötu og Hofsbót. Fjöldi bílastæða er ákveðinn í aðalskipulagi og er almennt 1 stæði per 75 m2 atvinnuhúsnæðis og 1 stæði per íbúð í miðbænum.

Hjólaskýli og hjólagrindur eiga að vera staðsettar víða í miðbænum, í skipulagsgreinargerðinni er minnst á að hönnun reiðhjólagrinda eigi að vera einföld, fáguð og traust (ekkert minnst á notagildi) en einnig kemur fram tillaga um að efnið verði veðrað stál og blágrýti. Lagt er til að strætisvagnabiðskýli verði sérhönnuð og samnýtist sem reiðhjólaskýli, þar er einnig talað um veðrað stál sem efni.

Helsta breytingin fyrir okkur hjólafólkið hlýtur að vera breytingin á Glerárgötu, fækkun akreina og lækkun hraða á 400 m löngum kafla. Þó grunar mig að það verði ekki margir í byrjun sem treysta sér á götuna þar sem erfitt verður fyrir bíla að fara fram úr. Loks er breytingin háð bæði jákvæðri niðurstöðu umhverfismats og undanþágu vegagerðar.  Fækkun bílastæða verður þó sennilega til þess að fjölga í okkar hópi, en bílastæðin verða auðvitað á sínum stað þar til einhver finnst sem vill byggja á byggingareitunum. Auðvitað fögnum við líka nýjum stíg meðfram Drottningarbrautinni og öllum þessum haug af (ryðguðum?) hjólagrindum og hjólreiðaskýlum.

Undirrituðum finnst eins og skipulagshöfundar hafi reynt að gera sitt til þess að gera hjólreiðar meira aðlaðandi, auk þess að minnka vægi einkabílsins, þó mér sýnist breytingarnar ekki verða miklar. Visst reynsluleysi má lesa á milli línanna. T.d. er kveðið á um mikið magn af hjólagrindum, en ekkert minnst á að þær eigi að vera „nothæfar“. Það er nefnilega þannig að 90% hjólagrinda í bænum geta skemmt hjólin sem í þau er lagt og gefa enga möguleika á því að læsa hjólum við eitthvað jarðfast, þ.a. þeir sem hugsa vel um hjólin sín sneiða hjá grindunum og nota frekar næsta ljósastaur.
Þrátt fyrir augljósann vilja skipulagshöfunda til að gera hjólreiðar aðlaðandi eru akreinar óþægilega mjóar fyrir hjólandi umferð og aðskilnaður akstursstefna á Glerárgötu gerir vandamálið enn verra. Hugmyndin er að gera göturnar þröngar til þess að draga úr umferðarhraða en öðrum aðverðum, sem ekki skemma fyrir hjólreiðamönnum, má beita í staðinn.

Áhyggjur má svo hafa af því að þessum breytingum sem mestu um munar fyrir hjólreiðamenn (lækkun hámarkshraða og fækkun bílastæða) verði mótmælt hástöfum af bílstjórum bæjarins og verði í framhaldinu frestað út í hið óendanlega. En ásetningur skipulagshöfunda er einmitt greinilega sá að minnka vægi bílanna og því verðum við að treysta bæjaryfirvöldum til þess að framfylgja því (og minna þau á ef með þarf). Það má líka minnast á það hér að í skipulagsgögnunum er umferðarhermun sem sýnir myndband af umferð á Glerárgötu í nútíð og framtíð. Samkvæmt útreikningum áætlunum verkfræðistofunnar Eflu (sem vann verkið) er ekki gert ráð fyrir neinni hjólandi umferð á Glerárgötu, hvorki í nútíð né framtíð (2035), ef miðað er við þessa hermun.

Deilisskipulagstillagan er þó ennþá aðeins tillaga, þ.a. enn má hafa áhrif, frestur til að gera athugasemdir rennur út þann 19. mars n.k. Auglýsi ég hér með eftir tillögum að breytingum sem gætu haft jákvæð áhrif á hjólreiðar. Sjálfur ætla ég að stinga upp á því að akreinar Glerárgötu verði breikkaðar í 4,5 m og aðrar aðferðir notaðar til að „tempra“ umferðarhraða og að einstefna í Hafnarstræti nái aðeins til vélknúinna ökutækja. Einnig að við skipulagsgreinargerðina verði bætt ákvæði um að notagildi verði haft efst í huga við hönnun reiðhjólagrinda og skýla. Það er allt og sumt sem ég hef til málanna að leggja.


Höfundarréttarhafar myndefnis í þessari færslu eru hérmeð beðnir velvirðingar á frjálslegri notkun þess í fullkomnu leyfisleysi.

Auglýsingar
  1. Engar athugasemdir ennþá.
  1. No trackbacks yet.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: