Heim > Uncategorized > Hvað spara ég mikið á að hjóla?

Hvað spara ég mikið á að hjóla?

Mér hefur algjörlega mistekist að verða moldríkur á því að hjóla í stað þess að keyra. Ef einhverju ykkar (lesendum) hefur tekist það vil ég endilega fá góð ráð.

Þrátt fyrir það er ekki hægt að líta fram hjá því að hver kílómetri er ódýrari á hjólinu en á bílnum. En hver er munurinn?

Kostnaður við akstur
Hér á vef Orkuseturs er reiknivél sem má nota til þess að fá bensínkostnað (þarna er reyndar líka „göngu- og hjólareiknir“ en hann miðar við eyðslu bíla í blönduðum akstri sem er sjaldnast sanngjörn viðmiðun fyrir göngu- og hjólaferðir). Reyndar gerir þessi reiknivél ráð fyrir því að bíllinn sé í eins og nýr, óhlaðinn, orðinn heitur þegar hann er ræstur, enginn vindur, enginn snjór o.s.frv. Því legg ég til að allavegana þeir sem eiga hvorki bílskúr né hreyfilhitara bæti a.m.k. 10% við eyðsluna á fyrstu 5 km hverrar ferðar bara fyrir það að bíllinn er kaldur (meðalhiti í Reykjavík er c.a. 6°C).
Ég giska á að hver kílómetri af akstri kosti á milli 3-4 kr í dekkjum og smurningu. Þetta fer svolítið eftir dekkjastærð (aðallega felgustærð reyndar á fólksbílum). Þá miða ég við að minni dekk dugi c.a. 30 þús km en jeppadekk 50 þús km.
Afföll af bílverði má reikna út Hér á vef Bílgreinasambandsins. Fyrir minn bíl er þetta frekar lítið, c.a. 2 kr á km. Á móti kemur að minn bíll er farinn að bila svolítið. Í minni eigu (rúm 3 ár) hefur hann bilað fyrir c.a. 4,5 kr/km.
Fyrir utan þennann kostnað „per km“ við að keyra er svo mikill fastur kostnaður. Hann má ekki taka með í dæmið fyrr en fjölskylda getur losað sig við a.m.k. 1 bíl. En þá er líka komin önnur stærðargráða á sparnaðinn.

Það kostar líka að hjóla!
Ef við hjólum á 10 km/klst eyðir meðalmaður 18 kaloríum meiri orku við að hjóla en keyra hvern km. Ef við öflum orkunnar með því að borða súrmjólk er kostnaðurinn tæpar 6 kr/km. Þetta er auðvitað viss einföldun, við ættum að taka meðaltal af öllum okkar matarinnkaupum og sjá hvað 18 kaloríur kosta að meðaltali. Ég hef ekki glóru um hvernig það kemur út í samanburði við súrmjólkina. En á móti kemur að ef maður sleppir því að fara í ræktina, á þeim forsendum að hjólreiðarnar séu næg hreying, þá þarf ekki að reikna fæði sem „eldsneytiskostnað hjólreiðanna“, því sömu hitaeiningum væri bara brennt í ræktinni í staðinn.
Svo slítum við hjólunum. Segjum t.d. að fyrir hverja 1000 km þurfum við að kaupa 3 pör af bremsupúðum, 0,2 umganga af dekkjum, 0,25 keðju og afturtannhjólakransa. Þá má segja að viðhaldskostnaður geti verið af stærðargráðunni 5 kr/km (ég skipti um alla þessa hluti sjálfur, en ég sé líka um minni viðgerðir á bílnum sjálfur).

Ef við reiknum hjólreiðar bara sem „minni bílnotkun“ og ekkert annað, þ.e.a.s. notum hjólið ekki í neitt annað en samgöngur og losum okkur ekki við bílinn, þá þurfum við að borga upp stofnkostnaðinn af hjólinu með sparnaðinum af minni bílnotkun. Þetta er auðvitað mjög misjafnt hvernig þetta kemur út milli manna. Ég myndi skjóta á að ég væri búinn að hjóla c.a 8000 km á mínu hjóli í samgöngum, borgaði 50 þúsund fyrir það en helminginn af stofnkostnaðinum vil ég skrifa á „tómstundanotkun“. Svo hef ég fjárfest fyrir kannski 20 þúsund í ljósum, brettum og öðrum búnaði til samgönguhjólreiða. Ég er alls ekki hættur að nota það, það er í fínu lagi ennþá. Ímyndum okkur að ég eigi 30% eftir af hjólinu, þá er stofnkostnaðurinn rétt um 4 kr/km (ég sleppi núvirðisreikningum til einföldunar).

Mitt dæmi:
Bíllinn:
Bensín: 19 kr/km
Afföll: 2 kr/km
Dekk og smurning: 3 kr/km
Viðgerðir: 4,5 kr/km
samtals: 28,5 kr/km

Hjólið:
Orka: 0 kr/km (ég sleppi ræktinni)
Slithlutir á hjóli: 5 kr/km
stofnkostnaður á hjóli og búnaði: 4 kr/km
samtals: 9 kr/km

Sparnaðurinn hjá mér er því í nánd við 19,5 kr/km.

Hvernig kemur dæmið út hjá ykkur? Er ég að gleyma einhverju?

Auglýsingar
 1. Þorsteinn Jóhannsson
  nóvember 29, 2009 kl. 12:43 f.h.

  Sæll hjólandi maður

  Skemmtileg pæling en mér fannst útkoman viss vonbrigði, hefði búist við að sjá hærri krónutölu. Ég trúði því ekki að maður þyrfti að borða fyrir 6 kr á hvern hjólaðan km svo ég fór að reikna en ég fékk reyndar út svipaða tölu. Þó má benda á til mótvægis að þeir sem eru með aukakíló ættu að geta sparað við sig allt þetta aukaát a.m.k. hluta þess í einhvern tíma eða þar til kjörþyngd er náð.

  Svo finnst mér undarlega lítill munur á slit og viðgerðakostnaði á hvern km, 7,5 kr á bílinn en 7 kr á hjólið en hef ekki skoðað það sjálfur.

  En það eru fleiri hlutir sem mætti reikna með. Ég ræddi þetta aðeins á mínum vinnustað og einn nefndi að ef maður færi að hjóla þá mætti spara kortið í líkamsræktina. Ég var reyndar ekki sammála því, ég hef stóraukið hjólreiðar en mæti enn í ræktina. Einhverjir mundu samt gera það svo það er alveg réttlætanlegt fyrir það fólk að taka það með í dæmið.

  Svo má ekki gleyma þeim jákvæðu hlutum sem fylgja s.s. bættri líkamlegri og jafnvel andlegri heilsu við það að hjóla.

 2. hjoladu
  nóvember 30, 2009 kl. 8:37 f.h.

  Sæll Þorsteinn,

  Ég er sammála því að munurinn mætti vera meiri per km.
  Enda stúderaði ég sumar tölurnar ekki mjög djúpt, hugsaði þetta svona sem grófa nálgun eða sýnidæmi. Aðstæður manna hvað þetta varðar eru náttúrulega mjög mismunandi.
  Það er vel hægt að borða fyrir minna en 6 kr/km ef maður vill (strásykur t.d.). En ég splæsi í súrmjólk á morgnana. Auðvitað er hægt að hjóla í einhvern tíma fyrir orkuforða „sem menn liggja með á lager“, en ég held að það sé ekki raunhæft að reikna með því að meira en lítill hluti orkunnar í hverri ferð komi úr spiki.
  Viðgerðarkostnaðurinn á hjóli er náttúrulega mjög misjafn. Það er vel hægt að komast fleiri þúsund kílómetra á einni keðju ef maður er duglegur að þrífa hana og mælir hvenær hún er orðin gömul (í staðinn fyrir að henda henni bara eftir árið), bremsupúðarnir endast miklu lengur ef maður hjólar ekki í snjó o.s.frv.

  Varðandi kort í ræktina, þá má alveg reikna það með inn í dæmið í sumum tilfellum, en ekki í mínu tilfelli.

  Í mínu tilfelli er rekstur bílsins frekar ódýr, þetta er smábíll sem er ekki lengur alveg nýr. Í flestum tilfellum eru bílar dýrari í rekstri per km.

  Þorsteinn, varstu kominn með tölu á þitt dæmi?

 3. nóvember 30, 2009 kl. 12:00 e.h.

  Sæll

  Það er rétt að kostnaður við rekstur bíls er mjög mismunandi. Skatturinn reiknar í dag með að kostnaðurinn sé um eða yfir 90 kr/km en þín útkoma er 19 kr/km. Það er ótrúlega ódýrt. Ef miðað er við 10.000 km/ári er ekki nema 45.000 kr i viðgerðir. Auk þess tekurðu ekki fastan kostnað (eins og tryggingar?) með. Skatturinn leyfir að vísu mjög háar afskriftir en það er sennilega hluti af íslenska samfélagssáttmálunum að hvetja til notkunar einkabíla og niðurgreiða notkun þeirra. Sjálfur fæ ég greitt km gjald fyrir ekna km. í þágu vinnuveitenda. Á framtalinu mínu fæ ég út að kostnaðurinn minn sé um 90% af kostnaði skv. Rsk. Þar af er tæplega helmingur afskriftir. Hvað afskriftir eru raunverulega veit ég ekki en þær hljóta að vera nokkrar þótt bílinn minn sé 10 ára í ár. Lágmarkskostnaður við rekstur bílsins sýnist mér í fljótu bragði geta verið um 60-70 kr./km ef ég ætti að giska á að afskriftir sé um 15 kr/km. Þar er auðvitað allur kostnaður innifalinn eins og tryggingar.

  Ég er ekki sammála forsendunum sem þú gefur þér. Dæmið er ekki reiknað til fulls fyrir bílinn en upp í topp á hjólinu. Mér finnst það t.d. ekki passa að reikna matinn sem einhverskonar eldsneytiskostnað fyrir hjólið. Kosta þá líkamsræktin 140 þús kr. = 60 þús kr kortið + maturinn 80 þús kr.? Hreyfing er nauðsynlegur þáttur í lífi hvers manns. Hreyfingarleysi er einfaldlega ekki valkostur því hún þýðir skemmri ævilengd og skert lífsgæði í áratugi fyrir andlátið. Besta leiðin til að tryggja daglega hreyfingu er að hún sé hluti af daglegri rútinu og þá t.d. að ganga, hlaupa eða hjóla í vinnu/skóla. Ef það á að keyra útreikninga út í svona öfgar þarf að taka með allt lífshlaup mannsins og draga frá kostnaðinn við skerta lífslengd og lífsgæði vegna hreyfingarleysis. Mikill hluti kostnaðarins er ekki einstaklingslegur s.s. útgjöld einstaklings og ævitekjur heldur samfélagslegur, bæði niðurgreiðslur til notkunar einkabílsins, skert lífsgæði og ævilengd, meiri sjúkdómar og kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

  En nóg um það. Reiðhjólin okkar ásamt strætókorti (40.000 kr/ári) gera okkur kleift að eiga bara einn bíl þannig að ég er ekki í vafa um að dæmið borgi sig fyrir okkur. Ég hjóla fyrst og fremst af algerri eigingirni vegna þess að ég hef gaman að því og sé ekki eftir einni krónu í þetta áhugamál mitt. Allt annað sem fylgir er bara plús.

  p.s. varðandi reiðhjólið sýnist mér þú gera ráð fyrir of lítilli endingu. Ég mundi segja að það færi 1 keðja og einn krans á 4000 km, vírar á 8-10.000 km en púðar kannski 1-2 sett á 1000 km. Dekk sýnast mér geta enst 5000 km. Allt miðað við þokkalegt viðhald, innigeymslu og smurningu.

 4. hjoladu
  nóvember 30, 2009 kl. 1:04 e.h.

  Sæll Árni,

  Takk fyrir gagnrýnina! Ég ætla að leyfa mér að skoða atriðin sem þú nefnir aðeins betur:
  Viðgerðarkostnaður á bíl: Þetta fer algjörlega eftir bílnum. T.d. fyrir nýjan bíl (0-3 ára) er þetta of hátt, því hann er í fullri ábyrgð. Þessi tala sem ég fékk er raunverulega kostnaðurinn af mínum bíl (keypti hann 2 ára, er núna 5 ára), en kannski „á ég inni“ dágóða bilun. Á móti lágum viðgerðakostnaði á nýlegum bílum ætti að vera kostnaður við þjónustuskoðanir! En ég hef ekki farið með minn bíl í þær (er á þeirri skoðun að þær séu peningaplokk, sérstaklega hjá íslenskum bílaumboðum). Minn viðgerðakostnaður væri líka töluvert hærri ef ég gerði ekki sjálfur við margt.

  Fastur kostnaður af bíl: hann tek ég viljandi ekki með vegna þess að ég reikna með að bíllinn sé til staðar hvort sem er. Eins og ég sagði í blogginu (og þú sýnir í svari) er sparnaðurinn mikið meiri ef hægt er að fækka um 1 bíl á heimilinu!

  Afskriftir af bíl: Það er mjög auðvelt að reikna það á vefsíðu Bílgreinasambandsins (linkur í blogginu). Þar velur þú bara þinn bíl og setur inn raunverulega stöðu km mælis og svo raunverulega + 10.000 km (eða 1000 km) og reiknar verðmuninn. Mjög fljótlegt. Ég fékk út 2 kr/km fyrir minn bíl. Þú giskar á 15 kr/km, það er 150 þúsund kr. fyrir hverja 10 þús km og 10 ára gamall bíll? Mér finnst það frekar hátt (gæti samt staðist ef hann er mjög lítið ekinn).

  Dæmið ekki reiknað til fulls fyrir bílinn: Ég vil endilega reikna dæmið til fulls, bæði fyrir bílinn og hjólið. En ég vil hafa forsendurnar réttar, t.d. ekki reikna með föstum kostnaði bílsins nema þegar maður getur fækkað bílum (eða slept aukningu) vegna hjólreiðanna. Endilega komdu með tillögur að fleiri kostnaðarliðum við bílinn sem eru tengdir fjölda ekinna km, ég vil endilega finna meiri sparnað 😉

  Ekki sangjarnt að taka matarkostnað með: Matarkostnaðurinn er samt til staðar. Ég þarf að borða meira þegar ég hjóla en þegar ég keyri og súrmjólkin er alltaf að hækka! En þetta er mjög góð ábending hjá þér, ég t.d. sleppi ræktinni vegna þess að ég hjóla (og stunda reyndar líka aðra hreyfingu), og því gæti ég sagt að ég myndi eyða sömu kaloríum í ræktinni. Þá gæti ég slept matarkostnaðinum við hjólreiðarnar og sem svarar einu líkamsræktarkorti á ári. Auðvitað verður hver að eiga það við sig hvort hann sé að sleppa korti í ræktina vegna hjólreiðanna, en það er önnur saga. Góður punktur, ég ætla að laga útreikningana hjá mér.

  Ending á slithlutum reiðhjóla: Ég skal endurskoða þessar tölur við tækifæri. Ætti eiginlega líka að finna verð í hlutina, ekki bara giska á það 😉

  Áhrif á heilsu og lífslíkur: Þetta er eitthvað sem ég vil ekki setja verðmiða á. Einhver gerir það kannski. Þetta er öðrum flokki en „sparnaður“ þegar kostir hjólreiða eru flokkaðir.

  Þú nefnir svo aðeins kostnað samfélagsins af akstri / hjólreiðum. Það er í raun efni í aðra færslu með enn fleiri hæpnum og loðnum útreikningum. Spurning hvor okkar verður á undan með hana 😉

 1. No trackbacks yet.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: